Í Kenya er annað hæsta fjall Afríku og ber nafn landsins: Mt. Kenya. Það er 5.199 metra hátt og hefur þrjá tinda, Batian (5.199m), Nelion (5.188m) og Lenana 4.985m). það er Lenana tindurinn sem að stefnan er tekin á í þessari fjölbreyttu en nokkuð krefjandi göngu. Það er ekki tæknilega erfitt að komast á Lenana tindinn en hæðin er mikil og minna súrefni en við sjávarmál. Landslagið er fjölbreytt og gengið er í gegnum nokkur gróðurbelti en efst á fjallinu er von á snjó. Flestir sem hafa notið þess að ganga á fjöll á Íslandi ættu að eiga góða möguleika að komast á topp Lenana í 4.985 metra hæð.
M: Morgunmatur, H: Hádegismatur, K: Kvöldmatur
Dagsplanið:
Dagur 1: Ferðadagur
Lent um kvöldið og gist á hóteli rétt við flugvöllinn.
Dagur 2
Snemma morguns er lagt af stað í átt að Mt. Kenya. Við ökum í gegn um Nairobi, höfuðborg Kenya, og virðum fyrir okkur iðandi mannlífið. Leiðin liggur í norður og fljótlega taka við sveitir og fallegt landslag í Sigdalnum mikla. Við munum gista í bænum Naro Moru vestan megin við Mt. Kenya rétt við miðbaug. Akstur þessa dags er u.þ.b. 5-6 tímar og ættum við að vera komin í tæka tíð fyrir hádegismat. Þessa nótt gistum við í fjallakofa (lodge) og snæðum kvöldverð. Innfæddur fjallaleiðsögumaður mætir til okkar um kvöldið til að spjalla og fara yfir leiðangurinn.
Gangan hefst við hliðið inn í þjóðgarðinn
Dagur 3
Eftir góðan morgunmat ökum við stuttan spöl að rótum Mt. Kenya. Hér skráum við okkur inn og deilum farangri niður á burðarmenn. Gangan byrjar rólega á meðan að allir finna sinn takt í hitanum. Gengið er í gegnum regnskóg og bambus frumskóg uns komið er á fyrsta áfangastað, Old Moses camp í 3.300m hæð. Líklegt er að flestir finni aðeins fyrir hæðinni, mæði og e.t.v. svolitlum höfuðverk. Göngutími u.þ.b. 4-5 klst.
Hádegismatur í hrjóstrugu umhvefi
Dagur 4
Eftir morgunmat og heitt te leggjum við aftur af stað. Landslag og gróður verður hrjóstrugra eftir því sem hæðin eykst og margir finna fyrir þeim áhrifum. Það er mikilvægt að fara ekki of hratt yfir þó svo að manni líði nokkuð vel. Við stoppum oft á leiðinni til að drekka og hvílast sem er alltaf nauðsynlegt og svo má ekki gleyma að taka myndir og njóta umhverfisins. Þegar til Shipton Camp er komið í 4.200m hæð þá munum við hafa gengið u.þ.b. 5-7 tíma og hækkað okkur um 1.100 metra. Flestir finna fyrir hæðinni og vilja hafa hægt um sig. Þó er mikilvægt að drekka vel af vatni/vökva og reyna að borða eins og listin leyfir, til að hafa næga orku.
Dagur 5
Þennan dag tökum við því rólega og reynum að aðlagast hæðinni eins og við getum. Þeir sem hafa áhuga og orku býðst að fara í stuttar skoðunarferðir í nágrenni Mcinder dalsins þar sem búðirnar eru staðsettar.
Hópurinn að undirbúa sig fyrir næturgöngu, síðasti spölurinn upp á toppinn
Dagur 6
Án efa erfiðasti dagur leiðangursins, við leggjum af stað um kl. 2 eftir miðnætti og fljótlega verður leiðin brattari er við stefnum á Lenana tindinn í 4.895m. hæð. Með því að fara snemma af stað eru mestar líkur á að göngufólk nái á tindinn þegar sólin er að koma upp, og fái sem fegurstu sýn yfir landið í fjarska þegar upp er komið. Ef heppnin er með okkur og bjartviðri í suðri, þá er hægt að sjá tind Kilimanjaro í Tansaníu tróna yfir skýin í 350 km fjarlægð. Eftir myndatökur og hvíld er gengið niður að Mintos búðum í 4.300m hæð þar sem kærkomin hvíld og kvöldmatur bíður okkar.
Dagur 7
Gengið niður til Chogoria hliðsins (4-5 tímar) þar sem göngunni líkur. Við kveðjum burðarmennina okkar og aðra fylgdarmenn og ekið til Nairobi.
Í hnotskurn
- Lengd: 7 dagar
- Land: Kenya