Upp frá sléttum Tansaníu rís Kilimanjaro hæsta fjall Afríku og teygir sig í 5.895 m hæð yfir sjávarmáli. Við hjá Afrika.is höfum skipulagt fjölmarga leiðangra á „Kili” í gegnum árin og aðstoðað nokkuð hundruð Íslendinga við að ná takmarki sínu að standa á toppi Kilimanjaro.
Kilimanjaro er hæsta frístandandi fjall í heimi
Það eru þó nokkrar leiðir sem hægt er að ganga á fjallið og í þessari ferð verður Rongai leiðin farin. Þá er ekið um ræktarland að norð-austur hlíðum fjallsins alveg við landamæri Kenya, gengið þvert yfir fjallið og komið inn á Mandara slóðann á niðurleiðinni. Að ganga á Kilimanjaro krefst ekki mannbrodda eða klifurbúnaðs en hæðin er mikil sem og kuldinn ofarlega í fjallinu. Þetta er áskorun sem tekur á bæði líkamlega og andlega þar sem gengið er í gegn um öll gróðurbelti jarðar og loftslagið sveiflast frá röku hitabeltinu niður fyrir frost á tindi Kilimanjaro.
M: Morgunmatur, H: Hádegismatur, K: Kvöldmatur
Dagur 1: Ferðadagur
Lent á Kilimanjaro flugvelli og ekið að bænum Moshi sem er við rætur Kilimanjaro. Hópurinn kemur sér fyrir á AMEG gistiheimilinu og um kvöldið er farið yfir gönguna ásamt innfæddum leiðsögumanni sem sér um framkvæmd leiðangursins á hæsta fjall Afríku og hæsta frístandandi fjall í heimi, Kilimanjaro 5.895m hátt. (K)
Eins og á Íslandi getur verið allra verðra von á fjallinu. Hér hefur snjóað um nóttina í Kibo búðunum.
Dagur 2: Nalemoru að Simba búðunum, 7km.
Þennan dag hefst gangan á fjallið, keyrt er í u.þ.b. 5 tíma frá Moshi upp í hliðar Killimanjaro að bænum Nalemoru (1.950m). Gangan hefst í þéttum regnskógi til að byrja með og síðan komið út á gresjur að Simba búðunum sem eru í 2.600m hæð. Á leiðinni má oft sjá apa og önnur skógardýr. (M, H, K)
Dagur 3: Simba búðir að Third Cave, 6km.
Nú hægist aðeins á göngunni þegar farið er yfir 3.000m hæð. Fyrri hluta dags er gengið yfir gresjur og oft má sjá villt dýr á leiðinni. Seinni hluta dags er gengið um hrjóstrugra landslag að hinum svokallaða Þriðja helli (3.850m). (M, H, K)
Dagur 4: Third Cave
Í Third Cave er ráðlegt að dvelja eina aukanótt til að aðlagast betur hæðinni. Hér er ágætt að fara í stutta göngutúra út frá búðunum. (M, H, K)
Mawenzi tjörnin. Við höfum stundum gist þar eina nótt í stað þess að gista tvær nætur í Third Cave
Dagur 5: Third Cave (3.850m) að School Hut (4.750m), 4km.
Gangan verður erfiðari og erfiðari eftir því sem hæðin eykst og grösugt og gróið landslag víkur fyrir hrjóstrugara. Eftir hádegi ættu allir að vera komnir að School Hut (4.750m), og líklegt er að flestir hafi hægt um sig í þessari miklu hæð. (M, H, K)
Dagur 6: School Hut (4.750m) – UHURU tindur (5.895m) - Horombo Hut (3.700m), 19km.
Rétt eftir miðnætti erum við ræst af stað og eftir tesopa og kex er lagt af stað til að takast á við lokaáfanga göngunnar. Gengið með höfuðljós upp bratta hlíð að Gilman's point í 5-6 tíma. Sólin er að koma upp um þetta leyti og þeir sem hafa orku ganga í aðra 2,5 - 3 tíma að Uhuru tindinum (5.895m). Eftir myndatökur og stutt stopp er gengið ofan af tindinum niður að School hut þar sem hádegismatur er borðaður í flýti og svo er gengið rösklega alla leið niður að Horombo Hut. (M, H, K)
Horft niður á Kibo búðirnar með Mawenzi tindinn í bakgrunni
Dagur 7: Horombo Hut (3.700m) að Marangu Gate (1.980m), 18km.
Lagt af stað frá Horombo Hut og komið til Marangu Gate, þaðan er keyrt til Moshi þar sem hægt er að fara í langþráða sturtu og skella sér í „betri” fötin fyrir kvöldmatinn. ATH „betri föt” þýðir einfaldlega þægileg föt sem ekki eru búin að vera á margra daga slarki á hæsta fjalli Afríku! (M, H, K)
Á leiðinni niður er gegnið í gegnum þéttan regnskóg, mögnuð andstæða við hrjóstrugt landslagið deginum áður
Dagur 8: Ferðadagur
Frá hlíðum Kilimanjaro er ekið út að flugvelli og flogið heim eða á vit annarra ævintýra eins og strandarinnar á Zanzibar eða safarí í Ngorongoro þjóðgarðinum. (M)