Afríka Ævintýraferðir - afrika.is
Fara beint í leiðakerfi vefjarins

Afrískar uppskriftir

Hér á síðunni má finna fjöldan allan af spennandi, afrískum uppskriftum eða nánar til tekið frá Kenya, Uganda, Rwanda og Tanzaníu. Margar uppskriftanna eru skráðar niður beint af vörum afrískra húsmæðra og matreiðslumanna. Afrískur matur er bæði framandi en samt heimilislegur í senn og oft getum við notað hráefni sem við eigum jafnan til í eldhúsinu. Matargerð í Afríku byggir mikið á grænmeti, baunum, kartöflum og ávöxtum og eru uppskriftirnar hér í takt við það.

Allar uppskriftirnar eru af www.cafesigrun.com og er öðrum heimilt að birta þær með því að vitna í uppruna þ.e. svona: Uppskriftin er birt á www.afrika.is en kemur upphaflega af www.cafesigrun.com.


Fiskur

Ofnbakaður Swahili fiskur með hnetusósu
Fyrir 2-3

Það eru sterk Swahili áhrif í þessum rétti en mikið er um fisk, engifer, hvítlauk, lauk og tómata við strendur Indlandshafs og víðar. Upprunaleg uppskrift er úr uppskriftabæklingi sem ég á, frá ströndinni í Mombasa og heitir höfundur þessarar uppskriftar Minah Jeffah. Hnetusósan hins vegar er úr bók sem ég keypti í Uganda. Hnetusósa er oft notuð í Swahili matargerð svo hún passar vel við þennan rétt. Ég hef breytt uppskriftinni töluvert og nota til dæmis grænmetið niðursneitt en set ekki í blandara eins og uppskriftin tiltók. Eins og þið sjáið kannski á myndinni þá er fiskurinn sem ég notaði ekki hvítur fiskur (ég notaði lax). Ástæðan fyrir því er að þegar ég var að búa til þessa uppskrift og ætlaði að fara að setja steinbítinn í form..var ormur í fiskinum (og þar með eru dagar steinbíts í minni matargerð taldir). Ég er meiriháttar viðkvæm fyrir svoleiðis í mat svo ég notaði frosinn lax sem ég átti í frystinum í staðinn. Sósan getur seint talist létt en hún inniheldur samt holla fitu og er fín með mögrum fiski.


Innihald
 • 500 gr smálúða eða skötuselur, roðflett og beinhreinsað
 • 1 mango, ágætlega vel þroskað, afhýtt og sneitt í mjóar sneiðar
 • 1 laukur, skorinn í þunnar sneiðar
 • 1 græn paprika skorin í þunnar sneiðar (ég nota rauða, finnst græn vond)
 • 3 tómatar í sneiðum
 • 4 hvítlauksgeirar, marðir
 • 1 tsk ferskt engifer, saxað fínt
 • 1/2 tsk svartur pipar
 • 1 mtsk tamarisósa
 • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1/2 tsk kókosfeiti

Aðferð
 • Setjið smá kókosfeiti í eldhúspappír og strjúkið eldfasta mótið að innan.
 • Skerið fiskinn í stóra bita og setjið í eldfasta mótið.
 • Blandið saman tamarisósu, hvítlauk og engiferi í skál.
 • Hellið yfir fiskinn.
 • Leyfið fiskinum að marinerast í þessu í um 30 mínútur ef tími er til.
 • Raðið paprikusneiðum, lauksneiðum og tómatsneiðum ofan á fiskinn.
 • Raðið mangosneiðum ofan á.
 • Saltið og piprið.
 • Hitið ofninn í 200°C og hitið í a.m.k. 20 mínútur.
 • Berið fram með hnetusósu.

Annað
 • Gott er að mýkja laukinn aðeins á pönnu áður en hann er settur á fiskinn, hann verður sætari þannig.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Rækjur í kókossósu
Fyrir 2-3

Borgar (bróðir) og Elín konan hans eru algjörir snilldarkokkar, það er alltaf gott að borða hjá þeim og maturinn sem þau gera er alltaf spes og öðruvísi því þau hafa viðað að sér miklum fróðleik um matarmenningu mismunandi landa með ferðalögum sínum um allan heim. Ég vildi að þau myndu opna veitingastað svo ég gæti komið á hverjum einasta degi og borðað. Ég veit að ég yrði ekki ein um það!!! Þessi réttur kemur frá Afríku (Kenya) en þau fengu uppskriftina frá afrískum kokki sem útbjó mat fyrir þau við strendur Indlandshafs. Eftir að hafa farið til Kenya ótal sinnum sjálf í gegnum árin finnst mér þessi matur ná einstaklega vel lyktinni, bragðinu og stemmningunni frá Indlandshafi. Bara ef maður gæti alltaf eldað þennan rétt undir pálmatrjánum, í hlýrri hafgolunni, í hvítum sandi, með lyktina af sjónum í nefinu.


Innihald
 • 500 gr rækjur eða 450 gr blandaðir sjávarréttir (hægt að nota lúðu líka)
 • 125-150 ml kókosmjólk (coconut milk, kaupið lífrænt framleidda)
 • 1 smátt skorinn laukur
 • 1 cm biti af engifer, afhýddur og skorinn mjög smátt
 • 1-2 hvítlauksgeirar, marðir
 • 2 ferskir tómatar, saxaðir frekar smátt
 • 1 1/2 mtsk tómatkraftur, hreinn
 • 1/2 mtsk karrí
 • 1/4 mtsk turmeric
 • 1/2 mtsk fish masala (má sleppa)
 • 1/2 tsk Nam Plah (fiskisósa)
 • 1/2 mtsk sjávarsalt
 • 1/2 mtsk kókosfeiti

Aðferð
 • Steikið laukinn, engifer og hvítlaukinn í kókosfeiti og vatni ef þarf þangað til allt er orðið mjúkt.
 • Setjið blönduðu sjávarréttina eða lúðuna útí. Ef þið notið rækjur skuluð þið setja þær út í alveg í lokin.
 • Bætið ferska tómatinum og tómatkraftinum út í og hrærið.
 • Bætið kryddunum við og saltinu.
 • Bætið kókosmjólkinni út í og látið malla við vægan hita í 2-3 mínútur.
 • Bætið rækjunum út í hér ef þið notið þær og hitið í nokkrar mínútur.

Annað
 • Gott að bera fram chapati, ferskt salat og hýðishrísgrjón eða bygggrjón með matnum.
 • Sósan er einnig góð með núðlum og grænmeti.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 

Grænmetisréttir

Ananas-og rauðrófusalat frá Naivasha
Fyrir 4 sem meðlæti

Þetta salat fékk ég fyrst í Naivasha sem er í Kenya, fyrir norðan Nairobi. Rauðrófur (rauðbeður) eru frekar mikið notaðar í Kenya og ananas er notaður í allt enda vex þessi frábæri ávöxtur víða í Kenya. Þegar ég sá þetta salat fyrst þá horfði ég á það og velti vöngum yfir því hvort ég ætti að prófa eða ekki. Ákvað svo að salat sem væri svona fallegt á litinn ætti skilið að vera smakkað. Ég sá ekki eftir því, salatið var afar bragðgott og skemmtilegt ekki síst af því áferðin á rauðrófum og ananas er svo ólík. Salatið er sérlega hollt og gott, vítamínríkt, járnríkt og gott fyrir meltinguna. Salatið má borða sem meðlæti eða í nesti eitt og sér. Manni þarf að þykja rauðrófur góðar til að geta borðað salatið en ég er heppin því ég elska rauðrófur!


Innihald
 • 2 litlar rauðrófur
 • 1/4 ananas
 • 1/4 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Aðferð
 • Sjóðið rauðrófurnar með salti í um 20-25 mínútur eða þangað til þær eru orðnar nokkuð mjúkar.
 • Kælið rófurnar, afhýðið og skerið í litla bita (gott er að nota hanska því liturinn er ansi sterkur og erfitt að ná honum af höndum). Gott er að miða við stóra sykurmola í stærð.
 • Afhýðið ananasinn, skerið miðjuna úr honum og saxið í bita jafnstórum rauðrófubitunum.
 • Best er að setja lúku af ananas í skál, setja svo lúku af rauðrófum, lúku af ananas og koll af kolli svo ananasinn verði ekki fjólublár þegar salatið er borið fram. Ekki hræra í salatinu.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Appelsínu- og ólífusalat frá Morocco
Fyrir 2 sem meðlæti

Þetta salat er frískandi og sumarlegt og alveg frábært til að bera fram sem öðruvísi salat hvort sem þið berið fram hefðbundið grænt salat líka eða ekki. Stundum er gaman að breyta til, sérstaklega á sumrin! Uppskriftin er úr frábærri bók sem ég hef átt í mörg ár og heitir North African Cooking.


Innihald
 • 1 appelsína
 • 1/4 rauðlaukur
 • 6-8 svartar ólífur, steinalausar
 • Smá klípa cayenne pipar
 • 1 mtsk ólífuolía
 • 1/2 tsk agavesíróp
 • Fersk corianderlauf til skreytingar (má sleppa)

Aðferð
 • Skrælið appelsínuna og hreinsið allt hvíta hýðið utan af henni sem og himnuna sem umlykur appelsínuna. Best er að skera appelsínuna á bakka með börmum því þið þurfið að nota safann sem kemur af appelsínunni.
 • Skerið rauðlaukinn í örþunnar sneiðar og aðskiljið hringina í sneiðunum.
 • Raðið appelsínusneiðunum á disk. Dreifið laukhringjunum yfir sneiðarnar.
 • Dreifið ólífunum yfir sneiðarnar.
 • Í litla skál skuluð þið blanda saman ólífuolíunni, cayenne piparnum og agavesírópinu.
 • Hrærið vel.
 • Hellið yfir salatið. Látið standa við stofuhita í um klukkutíma til að bragðið nái að "taka sig".

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Austur-afrísk grænmetissúpa með hnetum og sætum kartöflum
Fyrir 4

Þessi er rosa fín og matarmikil. Held að það sé ekki til fullkomnari haustsúpa, svei mér þá. Súpan er einstaklega holl því hún inniheldur tómata, engifer, sætar kartöflur, hnetur og margt fleira hollt og gott. Þar sem ég er nýkomin frá Afríku þegar þetta er skrifað þá langar mig helst að elda bara afrískan mat. Maturinn sem við fengum í Kenya var afar góður og bragðmikill án þess að vera of sterkur eða kryddaður. Hann er ekkert ósvipaður indverskum mat að sumu leyti þ.e. miðað við notkun á sumum kryddum eins og kanil, cumin, kartöflum, spínati og fleiru. Það þægilega við súpuna er að maður getur skorið grænmetið mjög gróft því það fer allt saman í matvinnsluvél!


Innihald
 • 1 mtsk kókosfeiti
 • 1 meðalstór laukur, saxaður gróft
 • 2 hvítlauksgeirar, saxaðir gróft
 • smá bútur af engiferi (um 2 gr), saxaður frekar smátt
 • 1 mtsk cumind (ekki kúmen)
 • 1 mtsk coriander
 • 1 tsk kanill
 • 1 tsk negull
 • 250 gr tómatar, saxaðir gróft
 • 450 gr sætar kartöflur, saxaðar gróft
 • 1 stór gulrót, söxuð gróft
 • 750 ml vatn
 • 1 mtsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1/2 stór gerlaus grænmetisteningur
 • 20 gr kashew hnetur, þurrristaðar á pönnu (má nota jarðhnetur líka)
 • 1 tsk cayenne pipar (má sleppa)
 • 1 mtsk hnetusmjör (hreint og auðvitað án viðbætts sykurs)
 • Nokkur lauf af coriander til skreytinga (má sleppa)

Aðferð
 • Hitið kókosfeitina á stórri pönnu á meðalhita.
 • Hitið laukinn í um 10 mínútur eða þangað til hann er orðinn mjúkur. Ef vantar meiri vökva, notið þá vatn.
 • Bætið hvítlauk, engiferi, cumin, coriander, kanil og negul saman við.
 • Bætið tómötunum, sætu kartöflunum og gulrótinni saman við. Hitið í um 5 mínútur.
 • Hellið 750 ml af vatni út í.
 • Bætið grænmetisteningnum út í.
 • Látið suðuna koma upp og leyfið þessu að malla í um 30 mínútur eða þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
 • Takið súpuna af hellunni og látið kólna í nokkrar mínútur.
 • Hellið súpunni í matvinnsluvél ásamt þurrristuðu hnetunum og hnetusmjörinu og blandið þangað til allt er orðið vel saxað (eiga ekki að sjást neinir grænmetisbitar. Súpan verður svona sinnepsgul á litinn).
 • Færið þessa blöndu nú í pott og hitið vel.
 • Saltið og piprið eftir smekk.
 • Dreifið nokkrum corianderlaufum yfir súpuna áður en hún er borin fram.
 • Berið fram með nýbökuðu, grófu brauði.

Annað
 • Súpan er enn þá betri daginn eftir.
 • Ef þið viljið hafa súpuna grófari, má mauka grænmetið minna.
 • Frysta má súpuna og hita upp síðar.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Avacado-, ananas- og rauðlaukssalat
Fyrir 3-4 sem meðlæti

Þetta salat er frísklegt og gott meðlæti með t.d. grillmat. Það minnir mikið á Afríku en er þó ekki afrískt. Avacado, ananas og rauðlaukur er mikið notað hráefni þarna suður frá enda passar þetta allt vel saman. Salatið er líka mjög hollt enda er avacado fullt af K vítamíni og einómettuðum fitusýrum (oleic acid) sem þýðir að það hefur góð áhrif á hjartað í okkur og getur hjálpað til við að lækka blóðþrýsting. Einnig er avacado fullt af trefjum og fólinsýrum sem er B vítamín nauðsynlegt konum sem eru ófrískar (á fyrstu mánuðum) því það stuðlar að heilbrigðum þroska fóstra. Ananas er góður fyrir meltinguna því fyrir utan að vera trefjaríkur inniheldur hann meltingarensímið Bromelain sem er gott fyrir meltinguna. Hann inniheldur líka Thiamin og C vítamín ásamt steinefninu Manganese sem hefur andoxunareiginleika. Laukur á svo að hjálpa til við að sporna gegn krabbameini, inniheldur C vítamín og hefur andoxunareiginleika. Svo er salatið ljómandi frísklegt og fallegt á litinn…..og hefur því jákvæð áhrif á andlega heilsu (a.m.k. mína)!


Innihald
 • 1/4 ananas, skorinn í bita (skerið hýði af og fjarlægið miðjuna)
 • 1/2 rauðlaukur (1 ef hann er lítill), saxið smátt
 • 1 vel þroskað avacado, saxað í bita
 • 1/2 tsk tabasco sósa
 • 3-5 fersk basilblöð, klippt í ræmur (má sleppa en gefur gott bragð)
 • Salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • Pipar

Aðferð
 • Setjið saxaða laukinn í vatn ásamt smá klípu af salti og geymið í 30 mínútur. Mér finnst gott að hafa hann ekki of bragðsterkan en ef þið viljið hafa hann sterkari, skuluð þið ekki setja hann í vatn.
 • Hellið vatninu af.
 • Blandið öllu saman.
 • Kryddið með salti og pipar.
 • Klippið basilblöð yfir salatið.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Baunaréttur frá Rwanda
Fyrir 2-3

Þegar ég var í Rwanda febrúar 2008 hitti ég stúlku að nafni Nadine í bænum Ruhengeri sem er við rætur Virunga fjallanna. Ég spurði hana hvað Rwandabúar borðuðu helst og hún svaraði: Baunir, grænmeti, kartöflur og maís hvers dags en kjöt spari. Hún nefndi pintóbaunir, kartöflur, sellerí og fleira úr uppskrift frá mömmu sinni og uppskrift þessi varð til úr þeim upplýsingum. Baunir eru mikið notaðar í Rwanda og ekki síst vegna þess að kjöt er frekar lítið borðað enda kannski ekki á færi allra að kaupa kjöt upp á hvern dag. Þessi baunaréttur er ekki svo ósvipaður Kitheri, baunaréttinum góða frá Kenya, báðir eru þeir mildir og bragðgóðir án þess að láta mikið yfir sér. Fínastu grænmetisréttir svona þegar maður á ekki of mikið í ísskápnum. Í þennan rétt má bæta við meira grænmeti eins og gulrótum, papriku, grænum baunum o.fl. svona eftir því hvað maður á. Rétturinn er bestur ef hann fær að malla í svolítinn tíma og hann er betri daginn eftir. Nauðsynlegt er að leggja pintóbaunir í bleyti að morgni til að geta búið til þennan rétt að kvöldi. Mér finnst brilliant að það sé sellerí í þessarri uppskrift frá Rwanda en eftir að hafa horft á górillu (og hlustað á hana) bryðja sellerí 2 metrum frá mér í fjöllum Rwanda get ég ekki annað en brosað þegar ég handfjatla sellerí.


Innihald
 • 1 bolli pintóbaunir, lagðar í bleyti (3 bolla af vatni) í 8 tíma
 • 1 stór kartafla, skorin í bita (svipaða og stóra sykurmola að stærð). Rwandabúar nota yfirleitt cassava en kartöflur eru einnig notaðar
 • 3 sellerístilkar, sneiddir
 • 1 laukur, skorinn í þunnar sneiðar
 • 1 tsk kókosfeiti
 • 1 gerlaus grænmetisteningur (einnig má nota salt og annað krydd í staðinn)

Aðferð
 • Hellið vatninu af baununum og setjið baunir í bott ásamt vatni þannig að rétt fljóti yfir.
 • Látið sjóða í um 30 mínútur eða þangað til baunirnar eru orðnar meyrar en ekki mjúkar.
 • Bætið selleríi, kartöflum og grænmetisteningi út í og látið malla í um 15 mínútur eða þangað til kartöflurnar eru orðnar nokkuð mjúkar en ekki alveg að mauki.
 • Á meðan skuluð þið hita kókosfeiti á stórri pönnu eða í stórum potti og steikja laukinn í 5 mínútur eða þangað til hann verður gylltur og fer að ilma, bætið við vatni ef þarf meiri vökva.
 • Hellið öllu úr pottinum á pönnuna (ef þið notið pönnu).
 • Látið malla í 20 mínútur eða þangað til allt fer að blandast vel saman og verða svolítið maukkennt (rétturinn er bestur svoleiðis).
 • Berið fram með t.d. chapati eða brauðbollum.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Eggaldin- og tómataofnréttur frá Kenya
Fyrir 6

Eggaldin og tómatar eru mikið notað hráefni í Kenya og þessi réttur er svona ekta heimilismatur (hjá þeim sem eiga á annað borð eldavél!) og vel seðjandi með góðu brauði. Þó hann sé seðjandi þá er hann léttur og fínn líka því í honum er hreint jógúrt og magur ostur. Í Kenya er yfirleitt notaður geitaostur (geitaafurðir eru mjög ríkjandi í Kenya eins og víða í Afríku) en ég myndi frekar borða málningu heldur en nokkuð sem inniheldur geitaafurð því mér finnst bragðið af öllu því sem kemur úr geitum alger viðurstyggð. Þessi réttur er ekki ólíkur grænmetislasagne að uppbyggingu en án pastasins.


Innihald
 • 2 stór eggaldin, sneidd
 • 1 tsk kókosfeiti
 • 2 laukar, sneiddir
 • 2 hvítlauksgeirar, saxaðir
 • 1 kg tómatar, saxaðir gróft (eða úr dós, lífrænt ræktaðir)
 • 2 mtsk tómatmauk
 • 1 mtsk basil, þurrkað
 • 1 mtsk agavesíróp
 • 1/2 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt) og pipar
 • Ofan á:
 • 500 ml hreint jógúrt
 • 25 gr rifinn, ferskur parmesan
 • 100 gr rifinn, magur ostur
 • 25 gr kotasæla (eða geitaostur fyrir þá sem vilja)
 • 25 gr brauðmylsna (úr grófu speltbrauði)

Aðferð
 • Hitið olíuna í stórum potti. Notið vatn ef meiri vökva þarf.
 • Hitið eggaldinsneiðarnar þangað til þær eru orðnar gullbrúnar á báðum hliðum. Takið úr pottinum og geymið.
 • Steikið laukinn og hvítlaukinn þangað til hvoru tveggja er orðið gullbrúnt.
 • Bætið tómötum, kryddi, tómatmauki, agavesírópi og salti út í. Bætið salt og pipar við eftir smekk.
 • Látið suðuna koma upp, lækkið á hitanum og leyfið þessu að malla í um 20 mínútur eða þangað til vökvinn af tómötunum fer að gufa upp.
 • Takið af hellunni og leyfið aðeins að kólna.
 • Blandið jógúrti, parmesan, kotasælu, 50 gr af rifna ostinum og brauðmylsnu saman.
 • Skiptið eggaldinsneiðunum í þrjá skammta.
 • Setjið fyrsta skammt af eggaldinsneiðunum í stórt eldfast mót (um 30 cm að lengd).
 • Setjið tómatablönduna ofan á, smyrjið vel yfir allt.
 • Bætið ostablöndunni saman við.
 • Endurtakið og endið á eggaldinsneiðum efst.
 • Setjið afganginn af rifna ostinum yfir og smávegis af meira parmesan ef þið viljið.
 • Bakið við 180°C í um 30 mínútur.
 • Athugið að það getur komið svolítill vökvi af tómötunum þegar þeir byrja að bakast en það er alveg eðlilegt.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Graskers- og kókosssúpa frá Zanzibar
Fyrir 4

Þessi súpa kemur úr bók sem heitir Zanzibar Kitchen. Það er fátt sem lýsir matnum á Zansibar jafnvel og þessi súpa. Kókosmjólkin er gríðarlega mikið notuð sem og öll kryddin sem fara í súpuna, þau eru mjög einkennandi fyrir Zanzibar. Það er ólýsanlegt að ganga inni í kryddskógunum á Zanzibar í þessum mikla hita sem þar er og finna ilminn af öllu kryddinu í kringum mann. Það er allt annar heimur og eitthvað sem ég mæli með fyrir allt mataráhugafólk. Maður hefur ekki upplifað kryddin fyrr en maður hefur farið í Spice Tour í skóginum! Í uppskriftina áttu að fara 125ml af rjóma en mér finnst það óþarfi því kókosmjólkin er nokkuð feit. Súpan er fín fyrir alla fjölskylduna því þrátt fyrir að í henni sé tabasco, þá er hún ótrúlega mild. Súpan er upplögð í október/nóvember þegar graskerin eru á kreik. Gott er að kaupa grasker og sjóða það til að geyma til seinni tíma.


Innihald
 • 2 tsk kókosfeiti. Bætið við vatni ef þarf meiri vökva
 • 50 gr laukur, saxaður gróft
 • 200 gr soðið grasker (afhýðið, fræhreinsið, skerið í búta og sjóðið í söltu vatni í um 15 mínútur. Þyngdin miðast við að graskerið sé búið að sjóða svo þið þurfið að kaupa um 400 gr grasker)
 • 650 ml grænmetissoð (vatnið + 2 gerlausir grænmetisteningarl)
 • 375 ml undanrenna eða léttmjólk
 • 1/8 tsk negull (enska: cloves)
 • 1 tsk ferskt, rifið engifer (má nota þurrkað engifer en þá þarf bara 1/2 tsk)
 • 1 tsk sítrónusafi
 • 1/2 tsk kanill
 • Smá sletta af Tabasco sósu (eða sterkri piparsósu). Má nota papriku í staðinn til að fá mildari súpu
 • 1/2 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 250 ml kókosmjólk (lífrænt framleidd)
 • Smá klípa saffran. Má sleppa en gefur súpunni fallegan lit

Aðferð
 • Hitið kókosfeitina í stórum potti og steikið laukinn þangað til hann verður mjúkur.
 • Bætið graskerinu við ásamt mjólkinni, grænmetissoðinu, kryddinu, tabasco sósunni, saltinu og sítrónusafanum.
 • Látið malla í 15 mínútur.
 • Bætið kókosmjólkinni við og hitið í eina mínútu án þess að sjóði.
 • Bætið saffrani út í.
 • Kælið súpuna aðeins og setjið svo í smáskömmtum í matvinnsluvél. Einnig má nota töfrasprota.
 • Blandið vel.
 • Athugið að sumir vilja grófari áferð og skal þá blanda súpuna minna.
 • Hitið súpuna upp að suðu.

Annað

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Grillað brauð með tómatsósu, gulrótum og osti
Fyrir 2

Hljómar fáránlega kannski en er alveg jafn fáránlega gott! Þessi réttur er hið fullkomna snarl í miðri viku því hann er fljótlegur og einfaldur og kostar heldur ekki mikið. Hann er líka upplagður fyrir krakka bæði að búa til og borða því flestir krakkar elska tómatsósu! Þetta er líka fín leið til að koma C vítamínum ofan í kroppinn bæði á börnum jafnt sem fullorðnum. Í tómötum eru líka andoxunarefni sem eru nauðsynleg svona í skammdeginu (og reyndar alltaf). Þessi réttur er afrískur þó ótrúlegt megi virðast en hann er úr bókinni Safari Kitchen sem ég held mikið upp á. Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á það að nota ekki venjulega tómatsósu.....hún er mjög óholl. Ég nota tómatsósuna frá Himneskri hollustu og hún er alveg svakalega góð. Þið getið notað hana eða einhverja aðra sem ykkur líst vel á og er án aukaefna, bragðefna, sykurs eða annars sem skemmir fyrir okkur. Þetta brauð er líka æðislegt sem forréttur. Diskinn á myndinni keypti ég í Stone Town, Zanzibar í rykugri antíkbúð. Diskurinn er meira en 100 ára gamall og á hann eru rituð 4 nöfn af 99 nöfnum Allah. Konan tók af mér loforð um að ég myndi ekki nota diskinn sem öskubaska. Ég var fljót að lofa henni því (enda nákvæmlega ekkert heimskulegra en að reykja sígarettur). Diskurinn er yfirleitt notaður í húsum fólks til að draga fram meiri gæfu o.s.frv. Ég verð bara að vona að konan sé sátt við að diskurinn sé notaður undir grillaða brauðið mitt og engin ógæfa fylgi brauðinu.


Innihald
 • 10 sneiðar af snittubrauði eða öðru brauði
 • 2 stórar gulrætur, rifnar á rifjárni
 • 150 gr rifinn, magur ostur. Þeir sem hafa mjólkuróþol geta auðveldlega notað sojaost í staðinn
 • 4-5 mtsk holl tómatsósa t.d. frá Himneskri hollustu (hollar tómatsósur fást yfirleitt í heilsubúðum eða eru í hillum heilsudeilda í matvöruverslunum)
 • Smá klípa salt (Himalaya salt eða sjávarsalt ) og slatti af pipar (eftir smekk)

Aðferð
 • Blandið saman ostinum, tómatsósunni, gulrótunum og kryddinu í stórri skál.
 • Dreifið jafnt á brauðsneiðarnar.
 • Bakið efst í ofninum við 200°C í um 15 mínútur eða þangað til osturinn er farinn að bráðna.
 • Berið fram heitt.

Annað
 • Minnkið saltið og piparinn ef brauðið ef þið búið til brauðið fyrir börn.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Gulrótar- ananas og rúsínusalat frá Kenya
Fyrir 4 sem meðlæti

Þetta salat hef ég fengið oft og mörgum sinnum í Kenya. Ég hef líka fengið salatið í Tanzaníu enda kannski ekki skrýtið þar sem ananas vex á báðum stöðum og er mikið notaður í matargerð. Salatið er ferskt og gott og mátulega sætt. Mikilvægt er að gulræturnar séu góðar og maður ætti að nota eigin uppskeru ef hægt er (af gulrótum það er að segja....ekki ananas nema þið séuð svo heppin að geta ræktað ananas sem er nú frekar ólíklegt :) Mér finnst þetta salat gott sem meðlæti með alls kyns mat, en sérstaklega með fiski. Það fyndna er að þessi samsetning er ein meginuppstaðan í mörgum gulrótarkökum! Algjör galdrasamsetning og einstaklega holl líka. Salatið er stundum borið fram í ananasbátum og þá er allt kjötið úr ananashelmingum skorið úr. Ef þið nennið að föndra þá er það voða gaman en maður hefur sjaldnast tíma fyrir svoleiðis dúllerí, mitt salat fer allavega bara í skál (og allt of oft á gólfið þegar ég er að flýta mér). Salatið passar jafnt með grillmatnum sem og með jólasteikinni.


Innihald
 • 1/4 ananas, skorinn í litla teninga (afhýðið og skerið miðjuna úr)
 • 1 stór gulrót, rifin á rifjárni
 • 100 gr ljósar rúsínur (sultanas)

Aðferð
 • Blandið öllu saman í skál og kælið.
 • Ég hef stundum séð svartar, saxaðar ólífur bætt út í salatið og mér finnst það stundum passa en stundum ekki.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Gulrótar- og kókossúpa frá Zanzibar
Fyrir 4

Ég hef lengi leitað að uppskrift að gulrótar- og kókossúpu og er hér búin að búa til eina sem er blanda úr nokkrum uppskriftum. Það skemmtilega við súpuna er að hún minnir mig mjög mikið á frábæra súpu sem ég fékk á veitingastaðnum Archipelago á Zanzibar september 2007. Súpuna borðaði ég við sólsetur uppi á svölum veitingastaðarins og ég horfði út á Indlandshaf. Á svoleiðis stundum verður lífið ekki mikið betra. Ég elska gulrótarsúpur og þessi uppskrift er svo ég segi bara sjálf frá, sérlega góð, mér fannst ég alveg finna lyktina af sjónum og heyra í sjómönnunum gera að aflanum fyrir kvöldið en aflinn er seldur á Forodhani matarmarkaðnum þar sem aldeilis er líf og fjör á kvöldin við gasluktir og kryddlykt. Fyrir gulrótarsúpur finnst mér aðalmálið vera að það sé gott jafnvægi á milli lauks, hvítlauks og gulróta því súpan má ekki vera of sæt. Þessi súpa er stútfull af A, C og K vítamínum sem og trefjum og er frábær yfir vetrartímann.


Innihald
 • 2 tsk kókosfeiti og vatn til viðbótar ef þarf
 • 1 stór laukur saxaður
 • 2 mtsk ferskt engifer, saxað
 • 4 meðalstórir hvítlauksgeirar, saxaðir
 • 1 tsk karrí
 • 2 gerlausir grænmetisteningar
 • 750 ml vatn (sumir vilja minna vatn til að fá þykkari súpu)
 • 300 gr gulrætur, afhýddar og skornar í grófa bita. Veljið bestu fáanlegu gulrætur, helst nýjar
 • 150 gr sætar kartöflur, afhýddar og skornar í grófa bita
 • 150 ml kókosmjólk, lífrænt framleitt í dós. Gott er að nota frosna kókosmjólk ef þið eigið afgang í frystinum (mér finnst gott að frysta afganga í klakabox)
 • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt) ef þarf
 • Hvítur pipar, ef þarf
 • Smá klípa saffran (má sleppa en gefur fallegan lit)

Aðferð
 • Hitið kókosfeitina í súpupotti og steikið laukinn þangað til hann fer að linast.
 • Bætið hvítlauknum og engiferinu út í og steikið áfram.
 • Bætið karríinu út í og hrærið vel.
 • Bætið helmingnum af vatninu út í og svo gulrótunum og sætu kartöflunum. Steikið þangað til grænmetið fer að mýkjast.
 • Bætið afgangnum af vatninu ásamt grænmetisteningunum út í og hrærið vel.
 • Látið malla í 15 mínútur eða þangað til grænmetið er orðið mjúkt.
 • Bætið kókosmjólkinni út í.
 • Bætið saffrani út í ásamt salti og pipar eins og þarf.
 • Maukið súpuna með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Kælið súpuna aðeins ef þið setjið hana í matvinnsluvél og blandið í smá skömmtum.

Annað
 • Berið fram með nýbökuðu brauði.
 • Ef þið viljið þynnri súpu bætið þá aðeins meira af vatni út í. Einnig getið þið haft súpuna grófari með því að blanda hana ekki lengi í matvinnsluvél. Mér finnst best að hafa hana eins og flauel án nokurra bita.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Kachumbari (tómat- og rauðlaukssalat)
Fyrir 3-4 sem meðlæti

Uppskriftin kemur frá Lucy Mwuangi svilkonu minni sem er frá Kenya. Þetta salat er svipað og mexikanskt "salsa" en ekki eins sterkt þar sem búið er að útvatna laukinn til að draga úr styrkleika bragðsins. Salatið er borið fram með öllu mögulegu í Kenya, ekki síst grilluðu kjöti eða grænmeti þ.e. notað eins og íslenskt hrásalat en helmingi hollara! Kenyabúar nota mikið af fersku coriander (stundum kallað Cilantro) í matinn sinn.


Innihald
 • 1 stór rauðlaukur, saxaður MJÖG fínt
 • 2 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 4-5 tómatar, MJÖG fínt saxaðir. Sumir fræhreinsa tómatana en það er smekksatriði
 • 1/2 gúrka, söxuð mjög fínt
 • Handfylli coriander, bara laufin, söxuð (má sleppa, ég nota ekki alltaf)
 • 1 rauður chillipipar, fræhreinsaður og saxaður fínt (má sleppa)
 • 1 vel þroskað avacado, saxað mjög fínt (avacado er ekki alltaf notað með en mér finnst það svakalega gott)
 • 1 límóna í bátum (má sleppa)

Aðferð
 • Látið laukinn liggja í söltu vatni í um 30 mínútur og skolið svo af í sigti (tekur bitra bragðið úr lauknum).
 • Blandað saman og kælið.
 • Gjarnan borið fram með límónu.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Kitheri - afrískur pottréttur
Fyrir 3-4

Þennan pottrétt smakkaði ég fyrst í Afríku. Mér fannst hann hrikalega góður en eftir ótal ferðir til Afríku gleymdi ég þó alltaf að fá uppskriftina að honum. Um daginn var ég svo í mat hjá svilkonu minni Lucy og bróður mínum og hún eldaði þennan rétt. Ég varð ekki lítið glöð að fá uppskriftina og það hjá innfæddri konu því Lucy er jú frá Kenya! Það besta við þennan rétt er að fyrir utan hversu hollur hann er, þá er hann ódýr og saðsamur. Þetta er svona réttur sem má malla í pottinum endalaust og verður bara betri og betri ef hann geymist í pottinum í nokkra daga. Þetta er hinn fullkomni haustpottréttur en ekki of bragðsterkur til að hann sé ekki fínn fyrir krakka líka. Gefið ykkur nokkra klukkutíma til að leyfa pottréttinum að malla. Maður flýtir sér aldrei í Afríku og sérstaklega ekki við matargerð!


Innihald
 • 2 dósir nýrnabaunir (um 500 gr þegar búið er að sigta vatnið frá). Gætið þess að þær séu ekki sykurbættar. Nota má þurrkaðar nýrnabaunir og leggja í bleyti
 • 3-4 meðalstórar kartöflur, soðnar
 • 1 laukur, saxaður fínt
 • 1 mtsk kókosfeiti
 • 2-3 meðalstórar gulrætur, skornar í bita
 • 1 kúrbítur, sneiddur og sneiðarnar skornar í 4 bita
 • 1 rauð paprika, söxuð í grófa teninga
 • 1/2 græn paprika, söxuð í grófa teninga
 • Maískorn (350 gr). Helst frosnar en annars í dósum, bara ekki sykurbættar. Ef þið fáið harðar maisbaunir þá eru þær bestar og líkastar því sem maður fær í Afríku (sem sagt ódýrar).
 • 1,5 stórir gerlausir grænmetisteningar
 • 1/2 dós af söxuðum tómötum
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • Smá klípa svartur pipar 
 • 1 tsk karrí
 • Hnefafylli af fersku coriander (mikilvægt að nota ekki þurrkað)

Aðferð
 • Sjóðið kartöflurnar þangað til þær eru nánast alveg tilbúnar, skrælið og saxið mjög gróft (skerið hverja kartöflu í svona 3-4 bita).
 • Steikið lauk og kartöflur saman í stórum potti þangað til laukurinn fer að gulna. Bætið smá vatni út í ef þarf meiri vökva
 • Bætið paprikum, og gulrótum út í og látið malla þangað til gulræturnar verða mjúkar.
 • Bætið kúrbítnum saman við.
 • Bætið nú söxuðu tómötunum saman við og látið malla í svona 10 mínútur við meðalhita.
 • Bætið maísbaununum og nýrnabaunum saman við ásamt smávegis af vatni og grænmetisteningunum.
 • Rífið ferskt coriander og dreifið yfir.
 • Það sem gerist núna er að grænmetið sýður og pottrétturinn mun virka svolítið "blautur" og óspennandi þ.e. ekki alveg "blandaður saman!. Þetta er þó allt í lagi þar sem að nú þarf pottrétturinn að malla í svona 40 mínútur - klukkutíma og þá gufar vatnið upp og þetta mun líta betur út, svona eins og pottréttir eiga að gera!
 • Setjið lokið yfir pottinn og látið krauma á góðum hita í svona 30-40 mínútur.
 • Takið lokið af og látið malla í um 20 mínútur á aðeins lægri hita
 • Berið fram með chapati brauði eða ristuðu pítubrauði til að dýfa í.

Annað
 • Gerið bara nógu mikið af pottréttinum til að hafa hann daginn eftir, taka hann í vinnuna í nesti (góður kaldur) og jafnvel til að frysta.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Mango- og engiferssúpa frá Masai Mara
Fyrir 4-5

Þessa súpu fékk ég hjá stúlku sem heitir Margararet Ngugi en hún er kokkur á Mara Simba Lodge í Masai Mara í Kenya en þar dvaldi ég í nokkra daga í febrúar 2007. Þegar súpan var borin á borð og kynnt ætlaði ég að afþakka því mér fannst hún hljóma ekkert alltof vel en eftir mikinn þrýsting og loforð um gott bragð, ákvað ég að smakka á henni. Eins og alltaf er hollt fyrir mann að láta fordóma lönd og leið og súpan bragðaðist afar vel. Hún var uppbökuð hjá Margaret en ég hef hana aðeins hollari og sleppi smjörbollunni. Hún er því aðeins þynnri hjá mér en það má setja smá matreiðslurjóma ef maður vill út í hana. Skálina og skeiðina keypti ég í Mombasa en dúkurinn sem súpuskálin fína stendur á, kemur úr Masai þorpi í Masai Mara og hann seldi mér höfðinginn sjálfur. Hann þverneitaði að selja mér hann á lægra verði en 2000 kenyska shillinga (um 2000 krónur íslenskar) því hann var að safna sér fyrir belju til að geta keypt fleiri eiginkonur. Höfðinginn þessi notaði filmubox til að stækka gatið í eyranu sínu (mjög sérstakt að sjá mann með filmubox í eyranu þar sem við hin höfum eyrnalokka). Dúkinn (sem er eiginlega teppi) nota Masair meðal annars til að hræða burt fíla og ljón en aðallega fíla því þá eru Masair dauðhræddir við þó þeir hræðist fátt. Anderson Masai sem var bílstjórinn okkar í þessari ferð sagði okkur til dæmis að þegar hann var lítill strákur þá var honum kennt að henda teppinu í jörðina og hlaupa í burtu því fíllinn trampar á teppinu (þar sem lyktin er) en fattar ekki að þú hleypur í burtu. Það þýðir ekkert að klifra upp í tré eða hlaupa undan fílum í árásarham því þeir hlaupa þig uppi eða hrista þig úr trénu. En frá fílum í engifer. Engiferið er afar gott við bílveiki, sjóveiki og almennt við flökurleika og magakvillum, eitthvað sem kokkarnir hafa lært af bílveiku ferðafólkinu! Jæja þetta var alltof langur formáli að uppskrift (og alltof löng kennslustund í fíla-fælufræðum) en vonandi njótið þið súpunnar!


Innihald
 • 10-20 gr fínt saxað engifer (mér finnst gott að hafa milt engiferbragð en fyrir þá sem vilja sterkara bragð má setja meira en 10 grömm af engiferi)
 • 400 ml mangosafi (hreinn og lífrænt framleiddur, án viðbætts sykurs. Fæst yfirleitt í heilsubúðum)
 • 150 ml undanrenna (var ekki í upphaflegu uppskriftinni). Einnig má nota hrísmjólk eða sojamjólk
 • 700 ml grænmetissoð (vatn + 2-3 gerlausir grænmetisteningar)
 • 2 mtsk kartöflumjöl eða spelti (þeir sem hafa glúteinóþol ættu að nota kartöflumjöl)
 • 1 tsk kókosfeiti og smá vatn
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Aðferð
 • Hitið kókosfeiti í djúpum potti.
 • Brúnið engiferið í um 2 mínútur. Bætið smá vatni saman við ef þarf.
 • Hrærið kartöflumjölið eða speltið út í en gætið þess að það brenni ekki við.
 • Bætið soðinu út í og látið suðuna koma upp.
 • Látið malla í 30 mínútur.
 • Sigtið súpuna í gegnum fíngatað sigti (einnig er hægt að nota töfrasprota en þá verður mjög sterkt engiferbragð af súpunni).
 • Bætið mangosafanum út í.
 • Bætið undanrennunni út í (bætið hægt út í og smakkið súpuna til, ekki víst að þurfi alla undanrennuna).
 • Saltið eftir smekk.

Annað
 • Það á að vera mjög gott jafnvægi á milli engifers og mangos svo hafið það í huga þegar súpan er tilbúin og jafnið bragðið til ef þarf með meiri undanrennu, mangosafa o.s.frv.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Sambaro gulrætur frá Tanzaníu
Sem meðlæti fyrir 2-3

Gulrætur og sætar kartöflur eru mikið notaðar sem meðlæti í Tanzaníu og reyndar víðar í Afríku og oftar en ekki er hráefnið kryddað aðeins en ekki bara borið fram soðið eins og til dæmis víða í Evrópu. Ég elska grænmetið í Afríku, það er alltaf svolítið saltað þegar það er soðið og það er einmitt það sem maður þarf eftir heitan dag. Margir eru hræddir við að borða grænmeti og ávexti í Afríku en yfirleitt eftir að hafa séð mig með kúfaða diska af hvoru tveggja í 10 daga…róast samferðarfólk og stingur upp í sig soðinni gulrót og jafnvel ananas. Í Afríku fær maður besta ananas í heimi. Málið er að treysta stöðunum sem maður er að borða grænmeti og ávexti á og kaupa aldrei, aldrei, neitt við vegkantana sem maður getur ekki skrælt.


Innihald
 • 250 gr gulrætur, afhýddar og sneiddar gróft
 • 7 gr svört sinnepsfræ (enska: mustard seed)
 • 3/4 tsk turmeric
 • 1 stór hvítlauksgeiri (eða tveir litlir), saxaður gróft (eða marinn)
 • 1 tsk chilli, malað (eða 1 ferskur chilli saxaður fínt)
 • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1 tsk kókosfeiti

Aðferð
 • Sjóðið gulræturnar í vatni þangað til þær eru farnar að linast en ekki alveg mjúkar í gegn. Gæti tekið um 7-10 mínútur.
 • Hitið pönnu og ristið sinnepsfræin þangað til það fer að snarka í þeim (um 1-2 mínútur).
 • Takið sinnepsfræin af pönnunni og geymið.
 • Hiti kókosfeitina á pönnunni. Bætið við vatni ef þarf meiri vökva.
 • Steikið hvítlaukinn og bætið turmeric og chilli saman við.
 • Setjið gulræturnar á pönnuna ásamt nokkrum matskeiðum af vatni og látið krauma í um 5 mínútur.
 • Bætið sinnepsfræjunum og hitið í nokkrar mínútur í viðbót.
 • Saltið vel (gott að hafa vel salt).
 • Berið fram heitt.
 • Gott sem meðlæti með t.d. inverskum mat sem og kjötréttum fyrir þá sem borða kjöt.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Spaghetti ya Mboga (spaghetti með bökuðu grænmeti)
Fyrir 3-5 (fer eftir hversu mikið hver borðar)

Þessi einfaldi, afríski réttur kom mér á óvart. Ég leyfði tómötunum líka að malla vel og lengi og það borgar sig að vera þolinmóður því þannig verða þeir bestir og líkastir því sem maður fær í Afríku. Ég ákvað að gera réttinn léttari og bakaði grænmetið í eldföstum mótum í stað þess að steikja það. Ég steikti bara laukinn og hvítlaukinn. Ég nota líka helmingi minna af spaghetti en átti að gera því mér finnst betra að borða meira grænmeti en belgja mig út af spagetthi. Þessi réttur er léttur en þó saðsamur og hentar vel núna með haustinu. Þessi uppskrift kemur (aðeins breytt) úr bók sem heitir Swahili Kitchen og ég held mikið upp á. Þó að rétturinn virki ekki mikið afrískur þá er hann samt borinn á borð á veitingastöðum eins og á Alfajiri sem reyndar blandar saman swahili áhrifum og ítölskum. Ítölsk áhrif og swahili áhrif í sama potti þýðir yfirleitt að þá er maturinn frá norðurströnd Mombasa í Kenya en þar búa margir Ítalir. Ya Mboga á Swahili þýðir "með grænmeti".


Innihald
 • 1 kúrbítur (zucchini/courgette), saxað í stóra teninga
 • 1 eggaldin, saxað í stóra teninga
 • 1 rauðlaukur, saxaður fínt
 • 1/2 rauð paprika, sneidd í þunnar sneiðar
 • 1/2 gul paprika, sneidd í þunnar sneiðar
 • Smá sletta tabasco sósa (í uppskriftinni var rauður chilli, saxaður fínt en ég átti ekki chilli og tabasco kom vel út)
 • 1 hvítlauksgeiri, saxaður fínt eða marinn
 • 1 mtsk capers
 • 12 grænar ólífur, steinhreinsaðar og sneiddar (mér finnst reyndar svartar betri)
 • 1 bolli hollt tómatmauk (enska: tomate puree, notið lífrænt framleitt án sykurs)
 • 6 tómatar, saxaðir gróft eða samsvarandi magn í dós (um 2 dósir)
 • 250 gr spelt spaghetti (það áttu að vera 500 gr en mér finnst það of mikið. Það er þó smekksatriði og sjóðið helmingi meira ef ykkur finnst spagetthi gott eða eruð að fá marga í mat)
 • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Aðferð
 • Smyrjið eldfast mót með smá kókosfeiti (setjið smá slettu í eldhúsþurrku og strjúkið það að innan).
 • Setjið eggaldin og kúrbít í mótið, saltið aðeins og bakið við hæsta hita í efstu rim ofnsins þangað til grænmetið er alveg að fara að brenna. Það má meira að segja dökkna aðeins.
 • Smyrjið annað eldfast mót og setjið paprikusneiðarnar út í. Bakið í neðri rim og færið svo upp þegar hitt grænmetið er tilbúið og bakið aðeins lengur.
 • Steikið hvítlauk og lauk í smá kókosfeiti (og vatni ef þarf) eða þangað til laukurinn verður mjúkur. Notið frekar stóran pott.
 • Bætið tómötunum út í ásamt ólífum, capers og tabasco sósunni. Hitið þangað til fer að sjóða. Lækkið þá hitann og látið malla í um 20 mínútur eða þangað til vökvinn af tómötunum fer að minnka.
 • Bætið bakaða grænmetinu saman við á pönnuna ásamt tómatmaukinu. Hitið í um 10 mínútur eða þangað til allt er orðið vel blandað saman og eins og "gróf pastasósa".
 • Sjóðið spaghetthi á meðan. Setjið vatn í stóran pott, látið suðuna koma upp og sjóðið í um 7 mínútur.
 • Hellið vatninu af spaghettiinu og skiptið á milli diska.
 • Setjið væna slettu af grænmetinu ofan á hverja spagetthihrúgu.

Annað
 • Mér finnst betra að nota rauðlauk í þennan rétt en það má nota venjulegan líka.
 • Það má nota heilhveiti spaghetti í staðinn fyrir spelt spaghetti.
 • Það er rosa gott að rífa smávgis af ferskum parmesan osti yfir matinn rétt áður en hann er borinn fram.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Spínatrétturinn úr dularfulla húsinu í skóginum í Nairobi
Fyrir 2 sem aðalréttur

Það er löng saga að segja frá þessum rétti og hvernig ég fékk "uppskrift" að honum. Það atvikaðist þannig að í september 2007 var ég stödd alein í Nairobi. Ég var að taka á móti ferðafólki morguninn eftir frá Íslandi sem voru á leið í safarí. Jóhannes var með annan hóp í Mombasa. Borgar bróðir minn hafði ætlað að redda fyrir mig hótelherbergi en var aðeins of seinn þannig að ég var eiginlega á vergangi sem er ekkert endilega sniðugt í Nairobi. Nú... bróðir minn þekkir marga í Afríku og Stephanie sem vinnur fyrir hann mundi að vinkona hennar býr einmitt í Nairobi, rétt fyrir utan eða í Karen hverfinu sem heitir eftir Karen Blixen og liggur rétt við þjóðgarð Nairobi (þar sem má finna fíla, ljón, hléberða, nashyrninga og mörg fleiri dýr). Cornelius, innfæddi bílstjórinn minn sem var að rúnta með mig á glænýja, flotta Land Cruiser safaríbílnum þeirra Borgars og Elínar fékk það verkefni að keyra mig til þessarrar konu.

Ég vissi ekkert hvert ég var að fara (nema til Karen), hvernig húsið væri, hvort konan væri ein, hvort hún væri almennileg eða hvað. Ég vissi nákvæmlega ekkert. Það var farið að rökkva og Cornelius ákvað að stytta sér leið í Nairobi. Hann keyrði langt inn í eitthvað hverfi Nairobi og þar sátum við í umferðarteppu. Það fór að skyggja og Cornelius að ókyrrast aðeins í sætinu. Þarna eru ekki götuljós nema á stöku stað og alls staðar er verið að selja varning á götunni. Þegar líða tók á umferðarteppuna voru einhverjir pörupiltar farnir að horfa inn um bílgluggann og kalla Mzungu eitthvað....Ég veit hvað mzungu þýðir (hvít manneskja) en ég skildi ekki hitt. Ég spurði Cornelius að því en hann sagði bara "þú vilt ekki vita restina". Hann sagði mér að læsa bílhurðunum. Ekkert sérlega róandi svona í miðri Nairobi að vera á glæ, glænýjum rándýrum safaríjeppa þegar skyggja tekur. Það var eftir klukkutíma, í umferðarteppunni sem ég áttaði mig á því að ég hafði ekki séð eina einustu hvíta manneskju allan þennan tíma í teppunni. Það er mjög óvenjulegt í Nairobi þar sem margir stunda viðskipti frá öllum heimshornum. Nú við losnuðum loksins úr teppunni og keyrðum í kolniðamyrkri eitthvert út í buskann. Ég kannaðist reyndar við mig sums staðar en svo loksins keyrði Cornelius eitthvert út í skóg....Ég treysti bílstjóranum sem betur fer því annars hefði ég orðið sturluð úr hræðslu svona alein. Við keyrum í skóginum eftir kræklóttum stíg og í fjarska heyrum við gelt (eða þess vegna öskur úr flóðhesti svo djúp voru hljóðin). Þegar við komum nær heyrðum við geltið magnast og drottinn minn dýri ég hef aldrei heyrt önnur eins hljóð í hundi. Þetta var það dýpsta gelt sem ég hef heyrt og beinlínis öskraði "risa, risa stór hundur". Ég er ekki hrædd við hunda, síður en svo en ég þorði ekki að hreyfa mig út úr bílnum (hundar í Afríku er yfirleitt ekki gæludýr, þeir eru varðhundar og í orðsins fyllstu merkingu). Þetta reyndist vera blanda af Grate Dane og Rhodesian Ridge Back sem þýðir að hann var huge stór.

Þarna kemur kona á móti okkur sem sussar á hundana og segist vera vinkona Stephanie að nafni Lumman. Hún var sænsk og bauð mig velkomna á heimili sitt. Hún vísaði mér í gestahúsið sem var við hliðina á stóra húsinu og þar var nýbúið að gera upp gistiaðstöðu með dýnu á gólfinu, sturtu en ekkert annað, ekki einu sinni stól. Það hentaði vel því ég var þreytt og þurfti að vakna snemma, Cornelius ætlaði að sækja mig klukkan 4.45. Lumman tók ekki annað í mál en að ég fengi að borða og hún sagði mér að hún ætlaði að sækja mig eftir klukkutíma. Sem hún gerði. Hún dró mig í gegnum kolniðamyrkur (það er verið að gera húsið upp og allt rafmagnslaust) og leiddi mig út á verönd. Þar var búið að dekka borð með kertaljósum, nýbakað brauð ilmaði, ég fann lykt af meiri, dásamlegum mat og ég fann að ég var orðin glorhungruð. Ég sest til borðs og af því að þögnin var algjör, tunglið var nánast fullt en samt stjörnubjart þá bæði sá ég og heyrði í fullt af dýrum, bæði antilópum, kanínum, bjöllum, engisprettum o.fl., o.fl. Þetta var svo súrrealískt. Eftir smá stund fóru fjölskyldumeðlimirnir að tínast að borðinu. Þar voru þrjár stúlkur á mismunandi aldri, eiginmaðurinn sem er frá austurríki en fæddur í Kenya og svo fjölskylduvinurinn sem gat ekki borið fram r og sagði l í staðinn. Það gat verið hrikalega fyndið en ég gat auðvitað ekki hlegið. Fjölskylda þessi var einstaklega gestrisin og spurði mig í þaula um Ísland, hvað ég væri að gera í Kenya o.s.frv. Það kom upp úr kafinu að yngsta dóttirin 8 ára (sem í skólaferðalögum fer í kamel safarí og gistir í tjaldi í eyðimörkinni...) var með áhuga á íslenskum hestum og fannst mikið til koma að ég vissi allt um íslenska hestinn og væri nýkomin úr viku hestaferð á fjöllum. Það var margt fleira forvitnilegt sem ég bæði heyrði og þau sögðu mér frá. Til dæmis er aðal atvinna húsfreyjunar að smíða húsgögn úr gömlum (100 ára) dhow skipum (skip sem notuð voru til að sigla með krydd, þræla og ýmsan varning frá Zanzibar og áleiðis). Húsgögnin voru þannig að mig langaði til að kaupa nákvæmlega allt. Ég hugsaði með mér "hér er minn stíll". Nú...elsta dóttirin (eitthvað um 17 ára) er að berjast við hvítblæði og fjölskyldan fór í ár til Austurríkis til að fá bestu meðhöndlun fyrir dótturina. Þau sögðu að lokum að steinsteypan hefði verið að drepa þau öll og þau voru farin að þrá Afríku aftur. Sem ég skil svo að mörgu leyti. Þegar þau voru að segja mér allt um þetta mál kom kisi að mér og straukst við fótinn á mér. Eins og alltaf þegar maður borðar undir beru lofti í myrkrinu í Afríku þá bregður manni..."vertu alveg róleg" sagði Lumman...."þetta er bara kisi....þeir voru tveir....en það var hlébarði sem át hina kisuna fyrir ári síðan hérna í garðinum". Þetta var fáránlega löng lýsing á uppskrift, sú lengsta sem ég hef skrifað en þetta var svo furðuleg upplifun og ég hugsaði með mér undir stjörnubjörtum himninum...þessu verð ég að deila með ykkur....Húsfreyjan átti ekki uppskrift að réttinum en ég bað hana um innihaldslýsingu og uppskriftin er nokkuð nærri lagi...nema það vantar hlébarða og engisprettuhljóð.


Innihald
 • 1 tsk kókosfeiti
 • 300-500 gr ferskt eða frosið spínat. Ef það er frosið afþýðið þá og kreistið vatnið úr
 • 1 hvítlauksgeiri, marinn
 • 1/2 blaðlaukur, saxaður (má sleppa)
 • 1 laukur, saxaður gróft
 • 1 tsk karrí
 • 2 mtsk kókosmjólk
 • 3/4 stór gerlaus grænmetisteningur

Aðferð
 • Steikið allan laukinn úr kókosfeiti og smá vatni ef þarf. Steikið þangað til laukurinn fer að linast.
 • Bætið kryddi og grænmetiskrafti saman við.
 • Bætið spínatinu saman við og hitið vel.
 • Bætið kókosmjólkinni saman við og hitið aðeins meira.
 • Berið fram með nýbökuðu brauði.

Annað

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Sætar kartöflur í hnetu- og engifersósu
Fyrir 4-6

Sætar kartöflur eru notaðar mikið í vestur Afríku og ásamt hnetum gerir þennan rétt bæði saðsaman og sætkryddaðan. Það er kannski svolítið skrítin innihaldlýsingin...ananassafi, hnetusmjör og hvítkál!!! Trúið mér samt að maturinn er rosa góður. Rétturinn hentar börnum einkar vel þar sem hann er mildur en mátulega kryddaður og fullur af hollu grænmeti. Þess skal þó gætt að börnin hafi ekki ofnæmi fyrir hnetum áður en þau byrja að borða matinn þar sem jarðhnetur eru einn almesti ofnæmisvaldur ungra barna. Þessi réttur er úr bókinni World Food Cafe og heitir eftir samnefndum veitingastað í London. Staðurinn er einn af mínum uppáhaldsstöðum í London og bókin er ein af mínum uppáhalds líka. Ég á eftir að setja inn margar uppskriftir úr þessarri bók á vefinn. Kannski geri ég einhvern tímann svona World Food Cafe Sigrun bók... hver veit! Gerið nóg af þessum mat því hann er rosa góður daginn eftir og helst ef hann fær að malla á vægum hita undir loki í einhvern tíma áður en hann er borinn fram.


Innihald
 • 1 mtsk kókosfeiti
 • 1 stór laukur, saxaður
 • 4 hvítlauksgeirar, marðir
 • 5 cm engiferbútur, afhýddur og saxaður fínt
 • 750 gr sætar kartöflur, saxaðar í smáa teninga (eins og sykurmola)
 • 450 gr hvítkál, saxað í bita
 • 1 tsk paprika, möluð
 • 1 tsk cayennepipar (má sleppa til að hafa réttinn mildari)
 • 400 gr saxaðir plómutómatar (ferskir eða í dós)
 • 300 ml hreinn ananassafi
 • 4 mtsk mjúkt hnetusmjör (lífrænt framleitt og án sykurs)
 • 1/2 tsk svartur pipar
 • Salt (Himalaya eða sjávarsalt)

Ofan á:

 • 2 gulrætur, afhýddar og rifnar gróft á rifjárni
 • 1 stór rauðrófa, afhýdd og rifin gróft á rifjárni
 • 2 bananar, meðalþroskaðir sneiddir
 • Safi af 1 límónu
 • Hnefafylli ferskt coriander, rifið (má sleppa)

Aðferð
 • Hitið kókosfeiti á stórri pönnu.
 • Steikið laukinn þangað til hann verður mjúkur. Notið vatn ef þarf meiri vökva.
 • Bætið hvítlauknum og engiferinu saman við og steikið í nokkrar mínútur.
 • Bætið hvítkálinu og sætu kartöflunum saman við og hitið vel.
 • Þegar grænmetið fer að verða mjúkt bætið þá paprikunni og cayennepiparnum saman við.
 • Hrærið vel saman.
 • Bætið tómötunum og ananassafanum saman við.
 • Setjið lok á pönnuna og látið malla þangað til grænmetið er allt orðið mjúkt.
 • Setjið hnetusmjörið saman við og hrærið allt vel saman.
 • Saltið og piprið eftir smekk.
 • Setjið í fallega skál og setjið bananasneiðarnar ofan á, svo gulræturnar og rauðkálið þar ofan á. Kreistið límónusafann yfir.
 • Skreytið með coriander ef þið viljið.

Annað

Berið fram með hýðishrísgrjónum, chapati brauði (eða glúteinlausum brauðvösum) og raita gúrkusósu.


Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Tómatsúpa frá Zanzibar
Fyrir 3-4 sem forréttur

Þessi súpa er rosa einföld og æðislega góð (fyrir utan að hún er að springa úr vítamínum og andoxunarefnum!). Upprunaleg uppskrift kemur úr bók sem heitir Swahili Kitchen (sem Jóhannes gaf mér þegar hann kom frá Afríku eftir prílið á Mt. Kenya 2006) en ég bætti hvítlauk og kartöflum í uppskriftina. Tómatarnir og helmingurinn af lauknum eru grillaðir í ofninum og þeir verða algert nammi þannig. Athugið að það tekur um 40-50 mínútur að grilla þá svo gefið ykkur góðan tíma. Súpan hentar vel fyrir þá sem hafa glúteinóþol, eggjaóþol, hnetuóþol og mjólkuróþol.


Innihald
 • 500 gr vel þroskaðir tómatar
 • 4 meðalstórir laukar, saxaðir fínt
 • 2 stórir hvítlauksgeirar, kramdir
 • 160 gr kartöflur
 • 1,5 kúfuð matskeið af tómatpuree (tómatmauk)
 • 500 ml vatn
 • 1 gerlaus grænmetisteningur. Má vera meira af vatni ef þið viljið hafa tómatsúpuna þynnri en gætuð þurft að bæta grænmetisteningi við
 • 1 mtsk kókosfeiti
 • 1 tsk þurrkað basil
 • Pipar
 • Salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 4 soðin egg (má sleppa). Ég nota bara eggjahvítuna

Aðferð
 • Hellið sjóðandi heitu vatni yfir tómatana og látið standa í skál í 1-2 mínútur.
 • Afhýðið tómatana.
 • Skerið tómatana í báta og setjið í eldfast mót (strjúkið smá kókosfeiti í eldhúspappír yfir eldfasta mótið).
 • Skerið tvo af laukunum fjórum í báta og raðið í eldfasta mótið.
 • Hitið ofarlega í ofninum við 220°C í um 40-50 mínútur eða þangað til brúnirnar á tómötunum og laukunum eru orðnar dökkar og jafnvel svartar.
 • Saxið hina laukana tvo ásamt hvítlauknum og steikið í smá kókosfeiti eða ólífuolíu á potti þangað til þeir verða mjúkir.
 • Skerið kartöflurnar í bita og setjið í pott ásamt smá kókosfeiti og vatni og tómatpuree.
 • Bætið grænmetissoðinu (vatninu og grænmetisteningnum) út í og látið kartöflurnar sjóða í um 20 mínútur.
 • Þegar þetta er orðið tilbúið, látið þá kólna aðeins.
 • Setjið í matvinnsluvél og maukið.
 • Takið nú eldfasta mótið úr ofninum, kælið aðeins og færið líka yfir í matvinnsluvélina
 • Maukið meira ef þið viljið hafa súpuna vel blandaða en minna ef þið viljið hafa bita í henni.
 • Berið fram með nýbökuðu brauði og soðnum eggjum (ég nota bara hvítuna).

Annað
 • Berið fram með snittubrauði, glúteinlausum brauðvösum og soðnum eggjum (ég nota bara hvítuna en auðvitað má nota rauður líka...bara óhollt). Soðin egg eru alveg fáránlega góð með tómatsúpum.
 • Súpan sjálf er frábær grunnur fyrir góða grænmetissúpu. Ef þið viljið hafa meira grænmeti í henni (t.d. blaðlauk, gulrætur, sveppi, papriku o.s.frv.) léttsteikið þá grænmetið og látið malla í súpunni þangað til grænmetið er orðið mjúkt.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Vefjur með avacadomauki og gulrótum frá Uganda
Fyrir 2

Þessar vefjur fengum við á miðbaug í Uganda febrúar 2008. Ef þið eigið leið hjá, endilega gefið ykkur tíma til að stoppa á miðbaug og smakka það sem þeir eru að bjóða upp á þar t.d. bananasmoothie, risamöffins (þeir stærstu sem ég hef séð á ævinni) og tortilla með guacamole svo fátt eitt sé nefnt. Einnig er góð minjagripaverslun á staðnum sem og fín hilla með áhugaverðum bókum. Allt er þetta til styrktar eyðnismituðum, munaðarlausum börnum. Það sem ég pantaði mér var vefja með avacadomauki og rifnum gulrótum og það var alveg svakalega gott og seðjandi. Þessar eru fínar í nestið eða bara sem léttur hádegismatur.

Hægt er að gera þennan rétt glúteinlausan með því að nota maísvefjur (athugið samt innihaldið til öryggis).


Innihald
 • 2 mjög vel þroskuð meðalstór avacado, maukuð í höndunum (ofan í stóra skál)
 • 1 tómatur, fræhreinsaður og saxaður gróft
 • 1/4 rauður chilli, fræhreinsaður og saxaður fínt
 • 1 hvítlauksrif, saxað fínt eða marið
 • 2-3 spelt, maís eða heilhveitivefjur, gerlaus og helst úr heilsubúð. Í Uganda er notað þunnt chapati brauð sem er líka mjög gott.
 • 1/4 laukur fínt saxaður (má sleppa)
 • 2 gulrætur, rifnar í strimla
 • 1/4 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt) eða tamarisósa

Aðferð
 • Blandið saman avacado, tómat, chilli, lauk og hvítlauk í stóra skál.
 • Dreifið avacadomauki í vefjurnar.
 • Dreifið rifnum gulrótum yfir.
 • Saltið eða dreifið tamarisósu yfir.

Annað
 • Það er gott að hafa smá rifinn ost (venjulegan ost eða sojaost) inni í vefjunum og einnig er gott að setja smávegis af söxuðum, hráum lauk…(samt ekki rétt fyrir stefnumót eða fund í vinnunni!)

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Zanzibar baunir með sætum kartöflum í kókossósu
Fyrir 4-6

Zanzibar tilheyrir Tanzaníu sem liggur í austurhluta Afríku. Ég kom til Zanzibar haustið 2007 og féll alveg fyrir töfrum eyjarinnar Krydd- og hnetumarkaðir, kryddskógar, tær, blár sjórinn, frábærir veitingastaðir, gamli bærinn (Stone Town) með Foradhani matarmarkaðinum á kvöldin við gasluktirnar...kræklótt hús og skökk þök..yndislegt. Á Zanzibar eru hefðirnar sterkar í anda Araba og Indverja og áhrif af sætkrydduðum mat frá t.d. Indlandi eru greinileg hér. Uppskriftin kemur úr bók sem ég á sem heitir World Food Cafe og heitir eftir samnefndum veitingastað í London. Veitingastaðurinn er grænmetisstaður og aldeilis frábær matur þar á boðstólum, einn af okkar uppáhalds stöðum. Hann er staðsettur í Neal’s Yard, Covent Garden fyrir þá sem vilja prófa hann. Athugið þó að hann er lokaður á sunnudögum! Ég mæli með bókinni, hún er full af frábærum uppskriftum og fróðleik um menningu þessa staða sem eigendur World Food Cafe heimsóttu. Þessi réttur er einn af þeim sem verður bara betri daginn eftir og er frábær á þriðja degi í nestið. Um að gera að búa til slatta! Vissuð þið að Freddie Mercury fæddist á Zanzibar? Það er m.a.s. veitingastaður sem heitir eftir honum.


Innihald
 • 2 tsk kókosfeiti
 • 450 gr sætar kartöflur, skornar í teninga (um 2cm)
 • 1 stór laukur, saxaður fínt
 • 6 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • 5 cm bútur af engiferi, afhýtt og saxað fínt
 • 6 negulnaglar, malaðir gróft (má líka nota duft en þá um 1/2 tsk)
 • 4 kardimommufræ (má sleppa)
 • 2 tsk turmeric
 • 6 grænir chilli, skornir eftir endilöngu í 4 hluta og svo þær lengjur í helminga
 • Ein lúka corianderlauf, rifin
 • 400 ml kókosmjólk (coconut milk), lífrænt framleidd
 • 450 gr soðnar augnbaunir (black eyed peas, þessar hvítu með svörtu doppunum). Það þarf ekki að leggja þær í bleyti heldur er nóg að sjóða þær í 50 mínútur.
 • Svartur pipar eftir smekk
 • Heilsusalt (Himalaya eða sjávarsalt) eftir smekk

Aðferð
 • Hitið 1 tsk af olíunni á stórri pönnu og bætið við vatni ef þarf.
 • Hitið sætu kartöflurnar þangað til þær eru nánast tilbúnar (um 10-15 mínútur) og mjúkar í gegn (samt ekki alveg í mauk). Setjið til hliðar.
 • Setjið restina af olíunni á pönnuna ásamt vatni ef þarf og steikið laukinn, hvítlaukinn og engiferið þangað til allt er orðið mjúkt.
 • Bætið öllu kryddinu við ásamt chilli og coriander og hitið í um 3 mínútur.
 • Bætið kókosmjólkinni við, sætu kartöflunum og baununum.
 • Leyfið þessu að malla þangað til kartöflurnar eru orðnar alveg tilbúnar.

Annað

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 

Hitt og þetta

Ástaraldins- og mangodrykkur
Fyrir 2

Þessi drykkur er Afríka í glasi (eða að minnsta kosti Tanzanía og Kenya í glasi). Það er ekkert sem hefur minnt mig jafn mikið á þessa staði eins og fyrsti sopinn sem ég tók af þessum drykk þegar ég var að búa hann til. Hann er alveg hreint dásamlega frískur og góður, mitt á milli þess að vera súr og sætur og er upplagður sem sumardrykkur. Á ferðalögum okkar um þessar slóðir kaupum við gjarnan ferska safa hvers konar, og það er fátt betra en að koma t.d. úr morgunsafaríi, svolítið syfjaður en upprifinn eftir ævintýri morgunsins (t.d. eftir að hafa séð ljón, fíla eða blettatígur!!!) og koma beint í morgunmat þar sem svalandi ávaxtadrykkur bíður manns. Fyrir utan að vera frískandi þá er safinn afar hollur því mango er fullt af andoxunarefnum, trefjum, A, K og E vítamíni og inniheldur kalíum (potassium) eins og bananar en kalíum leikur stórt hlutverk í að halda blóðþrýstingi í lagi o.fl. Ástaraldin (sem heitir á ensku Passion Fruit inniheldur svipaða vítamínbombu. Athugið að þegar þið veljið ástaraldin á ávöxturinn að virka svolítið þungur miðað við stærð og hýðið á að vera svolítið krumpað (virkar ekki girnilegt en þannig er það þroskað). Ef ykkur finnst steinarnir í ástaraldinum ekki góðir (þeir eru ætir) má láta safann renna fyrst í gegnum sigti.


Innihald
 • 1 mango (lítið), vel þroskað
 • 6 ástaraldin (lítil)
 • 200 ml hreinn appelsínusafi

Aðferð
 • Afhýðið mangoið og skerið í litla bita (þó þeir fari í blandara er best að skera það í litla bita vegna trefjanna sem eru í mangoi).
 • Skerið ástaraldinin í helminga.
 • Setjið mangobitana í blandara ásamt appelsínusafanum og blandið í 10 sekúndur eða þangað til allt er vel maukað. Bætið meiri appelsínusafa út í ef ykkur finnst þurfa.
 • Skafið kjötið úr ástaraldin helmingunum með skeið ofan í blandarann.
 • Blandið áfram í 2 sekúndur.

Annað
 • Einnig má nota ananassafa eða eplasafa.
 • Ef þið viljið drykkinn ískaldan má blanda ísmola fyrst í blandaranum. Bragðið nýtur sín hins vegar best ef drykkurinn er ekki alveg ískaldur.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Bananadrykkur frá Nairobi
Fyrir 2

Það var um haustið 2007 þegar við Jóhannes vorum (oft sem áður) í Nairobi. Við vorum nýkomin frá Zanzibar en þar áður höfðum við verið að lóðsa nokkra hópa fólks um Kenya. Við vorum með 7 tíma aflögu fyrir næsta flug (til London). Ég hringdi í James sem er innfæddur leigubílstjóri (eða réttara sagt strákpjakkur sem leigir gamla druslu og rúntar með fólk og fær um 500 krónur á dag fyrir). Ég hafði fengið James nokkrum sinnum til að skutla mér og líkaði vel við þennan hægláta en duglega strák. Nú, hann fór með okkur inn til Nairobi og við ákváðum að eyða tímanum í bókabúð, að kaupa hnetur og ávexti í flugvélina (í nesti) og fara á nokkur kaffihús. Við fórum í Sarit Centre sem er stór verslunarmiðstöð í Westlands hverfinu í Nairobi en þar er öruggt og þægilegt að versla. Þó að ég sé ekki hrifin af verslunarmiðstöðvum þá er eitthvað öðruvísi við að versla þar sem varðmenn vopnaðir AK 47 rifflum eru á sveimi….ekki alveg Smáralindsstemmningin. Nú við versluðum nokkrar bækur, þó ekki uppskriftabækur (því ég á þær flestar um afríska matargerð), fengum okkur ljúffengt kaffi á Dorman’s og rétt áður en við ætluðum að hitta James aftur ákváðum við að hendast upp á efstu hæð og grípa með okkur bananadrykkinn góða sem ég fæ mér alltaf þegar á leið þarna um. Við þeystumst upp, þeystumst aftur niður með bananadrykk í hönd (risaglös) og út í bíl. Það vildi ekki betur til en svo að Jóhannes náði að hella yfir sig allan um 400 ml af klístruðum bananadrykk. Það var 30 stiga hiti og engin loftkæling, við á leið út á flugvöll, fötin í töskunni, ekki einu sinni pappír uppi við og bílsætið óóóóóógeðslegt. Aumingja James…. Við vorum alveg miður okkar en tókst að ná í hreinan bol, þurrka það mesta úr sætum og af buxum og hendast út á flugvöll. Jóhannes var svo svekktur að ég gat ekki annað en gefið honum eiginlega allan minn drykk (allt of mikið fyrir mig hvort eð var). Við skildum við James á flugvellinum með fullt af þjórfé og pening fyrir þrifum. Hann brosti bara og sagði "Hakunamatata". En sem sagt þetta er uppskriftin af bananadrykknum og á meðan þið drekkið hann, ímyndið ykkur að þið hellið rúmlega 400 ml yfir ykkur í bíl í 30 stiga hita og með enga loftkælingu. Veeeeel klístrað!

Uppskriftin inniheldur hunang en því má skipta út fyrir agavesíróp ef þið eruð jurtaætur.


Innihald
 • 2 vel þroskaðir, stórir bananar
 • 1 mtsk acacia hunang eða agavesíróp
 • 150 ml sojamjólk (einnig má nota haframjólk, hrísmjólk, möndlumjólk eða undanrennu)
 • 4 ísmolar

Aðferð
 • Setjið ísmolana í blandara.
 • Hellið 50 ml af sojamjólk út á ísmolana.
 • Blandið vel eða þangað til mjólkin fer að freyða.
 • Setjið bananana, hunangið og afganginn af sojamjólkinni út í.
 • Blandið vel eða upp undir mínútu.
 • Berið fram strax.

Annað
 • Uppskriftin inniheldur hunang en því má skipta út fyrir agavesíróp ef þið eruð jurtaætur.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Grillsósa Abdalla Hamisi
Sem meðlæti fyrir 5-6

Þegar við fórum í eina af ferðunum okkar til Afríku (Kenya) vorið 2006 þá gistum við á stað sem heitir Coconut Cottages og er sunnarlega á Diani ströndinni í Mombasa. Þetta er himneskur staður, örfá hús, mjög mikið lokuð af og ströndin sem liggur að húsunum er einkaströnd, sem sagt afar fáir túristar. Maður læsir ekki einu sinni á nóttinni! Maður ræður því hvað er í matinn og kokkurinn á staðnum, hann Abdalla Hamisi Pore (sem lítur pínu út eins og Chef í South Park er snillingur. Allan daginn stóð hann sveittur við að undirbúa mat fyrir fólkið með bros á vör, auðvitað allan frá grunni. Hann gaf mér uppskrift að grillsósunni sem hann bar fram fyrir okkur með risastóra Kingfish fiskinum sem við höfðum veitt fyrr um daginn í Indlandshafi. Það var svo heitt þann daginn að ég var hálf hissa á því að fiskurinn hefði ekki hreinlega soðið í sjónum. Það var smá mál að fá uppskriftina, Abdalla þurfti að hugsa sig lengi um og það tók hann óratíma að skrifa uppskriftina og útskýra hana. Það var samt alveg þess virði.


Innihald
 • 1 laukur, smátt saxaður
 • 1 rauð paprika, smátt söxuð
 • 3 tómatar, vel þroskaðir, smátt saxaðir
 • 1 tsk duft af sætri, reyktri papriku (enska: smoked paprika (sweet), fæst í búðum sem selja mat frá Miðjarðarhafinu eða búðum sem selja sælkeravörur
 • 1 grænn chilli, smátt saxaður (má líka nota paprikuduft eða chilliduft)
 • 3-4 hvítlauksrif söxuð smátt
 • 1 stk ferskt engifer (um 2-3 cm), afhýtt og saxað smátt. (Í uppskriftinni sem hann skrifaði stóð jinjer (ekki ginger) sem mér finnst hrikalega sætt).
 • 3 mtsk hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) eða agavesíróp (í upprunalegu uppskriftinni var púðursykur)
 • 2 mtsk tómatmauk (enska: tomat puree)
 • 2 mtsk mangomauk (enska: mango chutney) má nota keypt en það er yfirleitt hlaðið sykri, aukaefnum og drullu svo ég geri mitt sjálf
 • 3 mtsk edik
 • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1 tsk karrí
 • 1 gerlaus grænmetisteningur (ásamt 1/4 - 1/2 lítrum af vatni)

Aðferð
 • Setjið allt hráefni í djúpa pönnu og látið malla í um 30 mínútur.
 • Kælið.

Annað
 • Fyrir utan að vera frábær grillsósa (t.d. hægt að marinera grænmeti áður en maður grillar það ásamt því að bera sósuna fram með grilluðum mat) þá er voða gott að baka fisk með þessari sósu t.d. með því að pakka honum inn í álpappír.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Hnetusósa frá Uganda
Fyrir 4 -5 sem meðlæti

Hnetusósa er víða borin fram í Uganda og ekki sjaldan sem ég borðaði hnetusósu með mat þegar ég var í Uganda enda er hún hriiikalega góð og ekkert ósvipuð Satay sósu. Hún er ekki létt hitaeiningalega séð en hún er óskaplega góð og inniheldur auðvitað holla fitu. Sósan passar líka með ótrúlega miklu t.d. marineruðu tofu, grænmetisborgurum, kjúklingi, fiski, soðnu grænmeti og mörgu fleira. Mér finnst mjög gott að fá mér hnetusósu með einhverju sem er magurt t.d. eins og mögrum fiski eða grænmeti og þá er maður kominn með fínt jafnvægi. Það sem þarf að passa vel er að krydda hnetusósuna í kaf þannig að maður hugsi “mmmm sætsterk sósa en ekki mmmm Snickerssósa” (ekki það að ég myndi nokkurn tímann á ævinni segja mmm og Snickers í sömu setningu en þið vitið hvað ég meina).


Innihald
 • 250 gr jarðhnetur án salts og hýðis (nota má gott, lífrænt framleitt hnetusmjör án sykurs í staðinn)
 • 1 tómatur
 • 1 laukur
 • 1 lítri vatn
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1/2 tsk paprikuduft (eða aðeins minna af chillidufti) og meira eftir smekk
 • 1 tsk svartur pipar og meira eftir smekk

Aðferð
 • Skerið tómata og lauk í grófa bita.
 • Setjið lauk og tómat í pott ásamt 500 ml af vatni og látið sjóða í 5 mínútur.
 • Ef ekki er notað hnetusmjör skal mala hneturnar afar fínt og blanda svolitlu vatni saman við til að búa til mauk.
 • Bætið hnetusmjörinu eða möluðu hnetunum út í og hrærið vel.
 • Hitið að suðu án þess að brenni við, hrærið oft.
 • Notið töfrasprota (eða matvinnsluvél) til að mauka allt vel. Því mýkri sem sósan á að vera, þeim mun lengur skuluð þið mauka sósuna.
 • Bætið meira vatni saman við ef þið viljið hafa þynnri sósu.
 • Bætið papriku eða chilliduftinu saman við.
 • Saltið og piprið helling.
 • Berið fram heitt.

Annað
 • Sósan geymist í nokkra daga í ísskáp.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Irio (kartöflustappa með lauk og baunum)
Fyrir 4 -6 sem meðlæti

Þessi réttur er eins afrískur og hugsast getur. Þetta er hefðbundinn matur hjá Kikuyu ættbálkinum, svona eins og grjónagrautur er hjá okkur. Irio er afskaplega milt og gott fyrir magann. Ég reyni alltaf að fá mér Irio í hvert skipti sem ég fer til Afríku og það er gaman að smakka á sem flestum stöðum því irio getur verið mjög misjafnt eftir svæðum og ættbálkum. Stundum fær maður með rauðlauk, stundum með venjulegum lauk og oft með spínati. Ég hef líka fengið irio með nýrnabaunum. Kenyabúar eru afar nýtnir eins og flestir íbúar Afríku og ef afgangur er af irio er hann gjarnan mótaður í buff og steiktur á pönnu í olíu. Ég hef ekki gert það en það væri örugglega hægt að baka irio buff í ofni! Yfirleitt er maísinn frekar harður í irio og ég sakna þess þegar ég geri hann sjálf að fá ekki harðar maísbaunir. Til gamans má geta þess að irio þýðir "matur" á Kikuyu máli.


Innihald
 • 375 gr kartöflur, skrældar og brytjaðar gróft
 • 75 gr grænar baunir, frosnar (enska: pees)
 • 75 gr spínat, frosið eða ferskt. Ef notað er frosið, afþýðið þá og kreistið vatnið úr. (Má sleppa).
 • 75 gr gulur maís, frosinn
 • 1/4 laukur, saxaður
 • 1 tsk ólífuolía
 • Smá klípa salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • Smá klípa svartur pipar

Aðferð
 • Hitið olíuna í potti og steikið laukinn þangað til hann fer að brúnast.
 • Bætið kartöflunum út í ásamt grænu baununum og maísnum.
 • Setjið vatn í pottinn þannig að fljóti yfir innihaldið.
 • Sjóðið þangað til kartöflurnar eru orðnar frekar mjúkar (til að hægt sé að stappa þær).
 • Sigtið spínatið og kreistið allt vatn úr.
 • Saxið spínatið og setjið út í.
 • Látið malla í 2 mínútur.
 • Hellið öllu vatni af.
 • Stappið vel þangað til allt er orðið ljósgrænt eða grænt.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Kókos- hvítlauksmauk (coconut- garlic chutney) frá Tanzaníu
Sem meðlæti fyrir 4-5

Eða eiginlega ekki frá Tanzaníu heldur frá Indlandi því kókosmauk er mikið notað þar. Ég smakkaði þetta meðlæti hins vegar á indverskum veitingastað í Moshi, Tanzaníu. Moshi er við rætur Kilimanjaro sem er drottning fjallanna í Afríku og gnæfir upp fyrir skýin þegar vel liggur á henni. Þessi indverski staður heitir Taj Mahal og er skyndibitastaður í orðsins fyllstu merkingu því 1 mínútu eftir að maður þylur upp pöntun er maturinn kominn á borðið og þetta er sko enginn ruslmatur hitaður í örbylgjunni. Ég veit ekki alveg hvernig þeir fóru að þessu en við vorum öll orðin svöng svo við vorum vel sátt við hraðann. Maturinn bragðaðist afar vel og var með áhrifum úr Swahili matargerð. Ein innfædd Kenyakona (reyndar indversk) var með okkur í för og hún gat sagt mér hvað var í innihaldinu á chutneyinu. Ég páraði það niður og við drifum okkur svo á vit frekari ævintýra. Þeir göngugarpar sem eru á leið upp Kilimanjaro gista yfirleitt í Moshi og ég mæli með þessum stað við þá sem eru að koma niður af fjallinu. Eitthvað til að hlakka til.


Innihald
 • 50 gr fersk kókoshneta, skafin í flögur (einnig má nota kókosflögur og 2 mtsk kókosmjólk í staðinn)
 • 1/4 grænt chilli, saxað
 • 1 hvítlauksgeiri, saxaður fínt eða marinn
 • 1 tsk kókosfeiti
 • 1 tsk sinnepsfræ (mustard seeds)
 • 1/2 tsk agavesíróp (hér á að nota tamarindmauk en það fæst ekki svo víða)

Aðferð
 • Hitið kókosfeitina á pönnu, notið vatn ef þarf meiri vökva.
 • Steikið hvítlauksgeirann og chilli í 3-4 mínútur. Ekki samt þannig að verði brúnt, heldur lint.
 • Hitið sinnepsfræin í 2 mínútur á pönnu.
 • Maukið kókoshnetuna eða kókosflögurnar og kókosmjólkina í matvinnsluvél þangað til allt er vel maukað.
 • Bætið agavesírópinu út í og blandið áfram.
 • Notið vatn eða meiri kókosmjólk ef þarf auka vökva.
 • Bætið chilli, hvítlauk og sinnepsfræjum saman við og blandið áfram.
 • Berið fram strax. Taka þarf maukið úr ísskáp um 2 klukkustundum áður en á að bera það fram því það harðnar í ísskápnum.
 • Notið sem meðlæti með indverskum mat, naan brauðum, baunaréttum o.s.frv.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Kókosbananar með afrískum áhrifum
Fyrir 2 sem meðlæti

Afbragðsgott sem meðlæti með krydduðum mat t.d. indverskum og thailenskum en einnig hentar hann vel með bragðmiklum afrískum mat. Elín svilkona mín hefur gjarnan búið til svona banana og þeir minna mikið á Afríku. Það er frábært að útbúa svona banana líka sem gott nammi fyrir krakka (og fullorðna).


Innihald
 • 1 banani, vel þroskaður
 • 4-5 mtsk kókosmjöl

Aðferð
 • Skerið bananann í um 5mm þykkar sneiðar.
 • Setjið kókosmjölið í skál.
 • Veltið hverri sneið upp úr kókosmjöli (eða hrúgið sneiðunum ofan í kókosmjölið og hrærið vel).

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Sítrónugraste úr kryddskóginum á Zanzibar
Fyrir 2

Þetta te fékk ég á Zanzibar haustið 2007. Þar fórum ég og Jóhannes að skoða kryddskóg, svonefndur af því að í honum vaxa kryddjurtir eins og negull, kanill, kardimommur, vanilla, pipar, sítrónugras, turmeric, múskat og margt, margt fleira. Það eru nokkrir svona um Zanzibar ásamt kaffiskógum sem við skoðuðum líka. Að vera í svona kryddskógi er eins og að vera í ævintýri og maður trúir því varla að maður sé að horfa á vanillujurtina eða að maður hafi óþroskaða negulnagla í höndunum, að klóra börkinn af kaniltrénu o.s.frv. Maður nuddar blöðum kryddjurtanna á milli fingranna og búmm...kryddlyktin stígur upp eins og fyrir galdur. Í tæpum 40 stigum og steikjandi sól er ekkert skrýtið þó að skógurinn angi eins og kryddbúð. Dásamlegt. Í þessum skógi býr fólk sem vinnur við að rækta kryddplöntur og selja. Við vorum með leiðsögumann með okkur sem sýndi okkur alla töfra kryddanna og þegar við vorum alveg að verða búin í kryddferðinni (sem tók alveg 2 tíma) þá fór hann með okkur í hús þar sem kona kom með heitan vökva í bolla (bollann sem þið sjáið á myndinni). Fyrst fannst mér skrýtið að drekka heitan vökva í þessum hita en af því að við vorum farin að venjast hitanum vel eftir 3ja vikna veru í Afríku þá var þetta allt í lagi og meira en það. Drykkurinn var dásamlega ferskur. Aðeins heitt vatn, sítrónugras og hrásykur (ég nota agave síróp). Þennan drykk á ég eftir að gera oft, ekki síst á veturna.


Innihald
 • Tveir stilkar sítrónugras (enska: lemon grass), saxaðir í 2-3 bita
 • 400 ml vatn
 • 1-2 mtsk agavesíróp

Aðferð
 • Sjóðið sítrónugrasið í vatninu í um 5 mínútur.
 • Sigtið sítrónugrasvatnið í stóra mælikönnu. Hendið sítrónugrasinu.
 • Blandið agavesírópinu út í eftir smekk.
 • Berið fram heitt.
 • Til að fá auka sítrusbragð má setja smá skvettu af límónu út í.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Suðrænn og svalandi ananas- og kókosdrykkur frá Uganda
Fyrir 2

Í rúmlega 40 stiga sátum við Jóhannes ásamt fleira fólki á Ginger sem er veitingastaður í bænum Jinja. Jinja er alveg við upptök Nílar í Uganda, þar sem Níl byrjar og Viktoríuvatn endar. Við vorum að bráðna, það var nánast óbærilegur hiti og við vorum að borða hádegismatinn á heitasta tíma dagsins. Maturinn á Ginger var frábær, meiriháttar blanda af afrískum og evrópskum mat og matseðillinn sérstakur. Það var eitt á matseðlinum sem vakti athygli okkar allra (svona miðað við ástandið á okkur) og það var Tropical Cooler. Í drykknum var meðal annars ísmolar, ananas (í Uganda er besti ananas í heimi) og kókosvatn. Okkur var lofað að ísmolarnir væru öruggir (þ.e. vatnið hreint) og að drykkurinn væri ÍSkaldur. Það var svo sannarlega tónlist í okkar eyrum. Eftir smástund komu þjónarnir með heila hrúgu af drykkjum á borðið okkar og þetta var svo sannarlega svalandi, suðrænt og frábært. Ekki skemmir fyrir að drykkurinn er afar hollur og vítamínríkur. Kókosvatn (vatnið úr óþroskaðri kókoshnetu inniheldur enga fitu, er hitaeiningasnautt en inniheldur kalk, magnesíum, potassíum og fleira sem er gott fyrir bein og taugar. Vissuð þið að vatn úr óþroskuðum kókoshnetum hefur verið notað í blóðgjafir t.d. í Afríku þar sem kókosvatnið er víst sambærilegur blóðvökvanum í okkur! Að drekka kókosvatn virkar á suma eins og að fá blóð beint í æð! Sem sagt…ef ég væri vampíra en samt grænmetisæta…myndi ég sennilega drekka kókosvatn he he.


Innihald
 • 4 ísmolar
 • 100 gr ferskur, vel þroskaður ananas
 • 330 ml kókosvatn (úr óþroskaðri kókoshnetu), fæst í fernum í heilsubúðum
 • 1 mtsk agavesíróp

Aðferð
 • Setjið ísmolana í blandara og blandið í nokkrar sekúndur.
 • Bætið ananas út í og smá slettu af kókosvatninu og blandið í nokkrar sekúndur (á að vera vel maukað).
 • Setjið restina af kókosvatninu og agavesírópinu út í og blandið í nokkrar sekúndur í viðbót.
 • Berið fram strax (hrærið í drykknum ef einhver tími líður þangað til þið berið hann fram því það sest til í honum).

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Svalandi melónudrykkur frá Kenya

Ég gleymi aldrei þegar við komum til Mombasa vorið 2006 í kæfandi hita og fengum ískaldan melónudrykk í glasi þegar við komum á hótelið okkar. Nammmmmm. Það er fátt meira hressandi í sumarhita. Ananasinn inniheldur mikilvæg ensím fyrir meltinguna og vatnsmelónur eru fullar af C vítamínum. Hreinsandi og nærandi drykkur og afar svalandi. Í öllum ferðum okkar til Afríku hefur oftar en ekki verið tekið á móti okkur með melónudrykk. Það er nóg til að ég dansi af gleði.


Innihald
 • Kjötið af 1/2 stórri, þroskaðri vatsnmelónu eða 1 lítilli. Allir steinar fjarlægðir
 • 100 ml ananassafi, hreinn
 • 4 ísmolar

Aðferð
 • Blandið ísmolana fyrst í blandara ásamt smá slettu af ananassafanum.
 • Setjið vatnsmelónubitana út í ásamt ananassafanum.
 • Berið fram strax.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Ævintýragrasker í kókosmjólk
Fyrir 4 sem meðlæti

Þessi réttur fylgdi með spínatréttinum úr dularfulla húsinu í skóginum í Nairobi. Mjög einfaldur og mildur réttur sem hentar vel sem meðlæti. Upplagður þegar grasker eru komin á kreik í október og nóvember.


Innihald
 • 200 gr grasker
 • 50 ml kókosmjólk (enska: coconut milk)
 • 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1/2 tsk cayennepipar
 • 1 tsk saxað, ferskt coriander (má sleppa)

Aðferð
 • Takið börkinn af graskerinu og skerið graskerið í grófa bita (munnbitsstóra).
 • Sjóðið graskerið í vatni og salti þannig að fljóti yfir.
 • Sjóðið í um 15 mínútur eða þangað til graskerið er nokkuð mjúkt þó ekki alveg lint.
 • Hellið vatninu af og setjið aftur í pottinn ásamt kókosmjólkinni. Saltið.
 • Hitið en sjóðið ekki.
 • Berið fram heitt.
 • Kryddið með cayennepipar og coriander ef þið viljið.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 

Kökur/Eftirréttir

Afrísk sítrónu- og appelsínukaka með birkifræjum
Gerir eina köku

Þetta er kannski meira í ætt við kökubrauð heldur en hefðbundna köku þar sem ekkert krem er á henni. Hún passar vel sem létt síðdegiskaka/brauð með kaffi eða tei. Það er gott að bera fram marmelaði (lífrænt framleitt og án viðbætts sykurs) með henni. Í upphaflegu uppskriftinni áttu að vera 325 gr af sykri, 125 gr af smjörlíki og 4 egg þannig að fyrir þá sem vilja djúsí köku þá þarf að breyta innihaldi kökunnar frá minni útgáfu! Þessa köku er best að bera fram sama dag og hún er bökuð því hún verður annars of þurr. Mikilvægt er að nota rétta stærð á formi þ.e. 20 cm. Upphaflega uppskriftin kemur úr frábærri bók sem ég keypti í Afríku sem heitir Recipes from the African Kitchen eftir Josie Stow og Jan Baldwin.


Innihald
 • 2 mtsk kókosfeiti
 • 200 ml krukka sykurlaus barnamatur með ávöxtum t.d. Hipp Organic
 • 100 gr rapadura sykur
 • 3 mtsk byggmaltsíróp (enska: Barley malt syrup) eða agavesíróp
 • 2 egg og 2 eggjahvítur, hrærð létt saman (áttu að vera 4 egg)
 • 300 gr spelti
 • 2 tsk vínsteinslyftiduft
 • 150 ml soyamjólk (eða undanrenna). Gætuð þurft minna en 150 ml
 • 40 gr birkifræ (poppy seeds)
 • Börkur af 1 appelsínu, rifinn mjög fínt
 • Börkur af 1 sítrónu, rifinn mjög fínt
 • 2 tsk vanilludropar eða vanilluduft
Ofan á kökuna:
 • Börkur af 1 appelsínu, rifinn mjög gróft
 • Börkur af 1 sítrónu, rifinn mjög gróft
 • 125 ml hreinn appelsínusafi
 • 4 mtsk sítrónusafi
 • 75 ml sykurlaus barnamatur með ávöxtum t.d. Hipp Organic (hér átti að nota 125 gr af sykri)
 • 1 mtsk hreint hlynsíróp eða byggmaltsíróp

Aðferð
 • Hitið ofninn í 160°C.
 • Setjið bökunarpappír innan í 20 cm hringlaga smelluform.
 • Hrærið kókosfeitinni og rapadura sykrinum + byggmaltsírópinu saman.
 • Hrærið eggjablöndunni saman við.
 • Sigtið saman í stóra skál, speltið og lyftiduftið.
 • Bætið eggjablöndunni varlega saman við. EKKI hræra mikið.
 • Bætið undanrennunni varlega saman við (gætuð þurft minna en kemur fram í uppskriftinni).
 • Bætið birkifræjunum ásamt berkinum af sítrónunni og appelsínunni og vanilludropunum varlega saman við.
 • Deigið á að vera frekar blautt og ef maður stingur sleif ofan í deigið og tekur sleifina upp aftur, ætti deigið að leka í stórum kekkjum. Það á ekki að vera hægt að hnoða deigið.
 • Hellið þessu í formið og bakið í um 40-60 mínútur eða þangað til prjónn sem stungið er í miðjuna kemur hreinn út. Gætið þess samt að ofbaka ekki kökuna. Tékkið á henni eftir um 40 mínútur og lækkið hitann ef hún er að bakast of hratt. Hún verður of þurr ef hún er ofbökuð. Gott er að setja álpappír ofan á hana til að hún bakist jafnar í gegn.
 • Á meðan kakan er að bakast þá getið þið undirbúið það sem fer ofan á hana.
 • Setjið grófa appelsínu- og sítrónubörkinn ofan í pott með sjóðandi vatni í um 1 mínútu, sigtið svo vatnið frá.
 • Hrærið saman sítrónu- og appelsínusafanum ásamt barnamatnum og byggmalt sírópinu.
 • Þegar kakan er tilbúin í ofninum, takið hana þá út og stingið fullt af götum í hana.
 • Smyrjið blöndunni strax ofan á kökuna og skreytið með grófa berkinum.
 • Berið fram annað hvort volga eða kalda með sykurlausu appelsínumarmelaði og tei (hægt að nota appelsínu og sítrónusneiðar út í heitt vatn líka).

Annað
 • Það er upplagt að nota sítrónur og appelsínur sem til falla í þessari uppskrift út í heitt vatn og drekka eins og te. Einnig er hægt að nota sítrónu- og/eða appelsínusneiðar út í kalt vatn. Mjög hressandi og fullt af C vítamínum.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Grillað mangó
Fyrir 2

Þetta er með einföldustu eftirréttum sem til eru en engu að síður er hann góður og hollur. Mangó er mikið notað í Afríku og ekki síst í Kenya þar sem maður getur týnt það beint af trjánum (eins og víðar auðvitað). Bragðgóður, einfaldur og hollur eftirréttur, alveg eins og ég vil hafa það! Kanilbörkinn á myndinni keypti ég í kryddskógi á Zanzibar.


Innihald
 • 1 vel þroskað, stórt mangó
 • 1 tsk agavesíróp eða hreint hlynsíróp
 • 1/2 tsk kanill

Aðferð
 • Að skera út mango: Mangósteinn er flatur og mjór og því þarf að skera meðfram honum til að eftirrétturinn verði sem flottastur. Skoðið mangóið aðeins og finnið út hvor hliðin er flatari. Þegar þið hafið áttað ykkur á því skuluð þið taka beittan, langan hníf og skera aðra "kinnina" af. Þið farið eins nálægt steininum og hægt er. Ágætt er að hafa í huga að steinninn er svona 1-2cm að breidd þar sem hann er breiðastur.
 • Endurtakið hinu megin og skerið hina "kinnina af".
 • Nú ættuð þið að vera með 2 "kinnar" og miðjuna úr mangóinu sem inniheldur steininn. Þið getið skorið utan af steininum og borðað kjötið því það er ekki notað í eftirréttinn.
 • Það er pínulítið vandaverk svona í fyrsta skipti að skera mangoið rétt en æfingin skapar meistarann.
 • Haldið á annarri "kinninni" þannig að kúpta hliðin snúi í lófann og mangokjötið upp.
 • Takið lítinn (ekki of beittan) hníf og skerið teningsmynstur í kjötið. Skerið þannig að þið snertið hýðið en farið ekki í gegnum það. Ímyndið ykkur að þið séuð að skera taflborð út í mangóið. Hver kubbur ætti að vera svona 1cm x 1cm. Ekki hafa áhyggjur af því þó þetta verði ekki fullkomið í fyrsta skipti.
 • Það sem þið eigið núna að gera, er að gera mangóið "úthverft" þ.e. snúa því út þannig að mangoið verði í svona flottum boga. Þetta verður rosa flott ef þetta tekst og þetta getur orðið næsta partýtrikk hjá ykkur! Mangoið mun nú líta út eins og appelsínugulur broddgöltur með grófa brodda (svona hér um bil).
 • Endurtakið með hina hliðina og munið að skera ekki í gegnum hýðið!
 • Penslið agavesírópinu jafnt yfir mangóið.
 • Dreifið kanilnum jafnt yfir.
 • Bakið efst í ofninum á hæsta hita í um 10-15 mínútur eða þangað til mangóið er orðið nokkuð dökkt efst.
 • Berið fram á diskum og berið fram með beittum hnífum (til að hægt sé að skera mangokjötið af).

Annað
 • Grillað mangó er frábært með hollum ís eða smávegis af cashewhneturjóma eða venjulegum, þeyttum rjóma fyrir þá sem það vilja!

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 
Mangó- og bananamuffins með pecanhnetum
Gerir 14-16

Það er eitthvað undursamlegt við mangó, banana og pecanhnetur. Mango er gríðarlega mikið notað í Afríku og bananar einnig. Við Jóhannes vorum einu sinni á hóteli á Zanzibar í Tanzaníu sem hét Zanzibar Coffee House. Hótelið var æðislegt og var kaffibrennsla á fyrstu hæð Jóhannesi til mikillar gleði. Hvert herbergi hét eftir kaffilögunaraðferð eins og Espresso, Macchiato, Cappuchino o.s.frv. Herbergin voru dásamlega falleg og við vöknuðum upp á morgnana við óminn úr moskunum í kring. Morgunmatinn borðuðum við uppi á þaki hótelsins og þar var í boði heimatilbúið hnetumuesli, ferskir ávextir, ferskur djús, vöfflur og ég veit ekki hvað. Á jarðhæðinni er besta kaffihús Zanzibar og þar var hægt að fá mango muffins. Ég smakkaði þá reyndar ekki en ég gat spurt afgreiðslustúlkuna svona gróflega hvað var í uppskriftinni. Ef þið eigið leið um Stone Town, Zanzibar þá megið þið ekki missa af þessum frábæra stað. Uppskriftin varð svolítið stór þannig að ég fékk 16 mjög stóra muffinsa en það má minnka uppskriftina og fá færri og minni. Það er fínt að frysta muffinsa tvo saman í poka og grípa svo með sér í nesti.


Innihald
 • 200 gr spelti
 • 90 gr rapadura sykur
 • 1 mtsk agavesíróp
 • 1 mtsk vínsteinslyftiduft
 • 1 tsk kanill
 • 1/2 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 1 egg og 1 eggjahvíta, hrærið lauslega saman
 • 2 bananar, vel þroskaðir
 • 1 mtsk kókosfeiti
 • 1 mtsk límónusafi
 • 275 gr mangó, vel þroskað (þyngd reiknuð eftir að það er afhýtt)
 • 50 gr rúsínur eða saxaðar döðlur
 • 40 gr saxaðar pecanhnetur eða valhnetur

Aðferð
 • Blandið saman speltinu, saltinu, vínsteinslyftiduftinu og kanilnum í stóra skál.
 • Stappið bananana.
 • Í annarri skál skuluð þið blanda saman eggjunum, kókosfeitinni, agavesírópinu, límónusafanum og rapadura sykrinum.
 • Bætið bönununum saman við eggjablönduna.
 • Hellið eggjablöndunni út í stóru skálina og blandið varlega saman (bara velta deiginu til og ALLS ekki hræra).
 • Bætið mangoinu, rúsínunum og hnetunum saman við, mjög varlega án þess að hræra.
 • Setjið í bökunarform (sjá athugasemd hér að neðan).
 • Bakið við 200°C í um 25-30 mínútur.

Annað
 • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg pappírsform, né muffinsbökunarplötuna. Það fást sem sé ekki muffinspappírsform sem maður getur sett í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Ég er búin að leita út um allt. Ég hef í staðinn sniðið hringi (strika með penna utan um undirskál) úr bökunarpappír og sett í hvert muffinspláss og svo deigið þar ofan í. Það er hægt að nota muffinspappírinn svo um 6 sinnum. Einnig má nota siliconform og þá þarf ekki bökunarpappír en gott er að strjúka aðeins innan í mótið með kókosfeiti (setja smá slettu í eldhúspappír og strjúka að innan).

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 

Salöt

Ávaxtasalat frá Afríku
Fyrir 4 sem meðlæti

Á öllum hótelum sem ég hef komið á í Austur Afríku (og þau eru mörg) er borið fram einhvers konar ávaxtasalat í bland við kökur og pönnukökur og fleira góðgæti fyrir svanga ferðamenn. Ég fer að sjálfsögðu alltaf beinustu leið í ávaxtaskálina enda lítið fyrir mig að hafa á hinum svæðunum. Það gerir þó ekkert til því ávaxtasalötin eru alltaf góð. Reyndar veiði ég alltaf papaya ávöxtinn úr því mér finnst hann aaaaaalgjör viðbjóður og ég nota því mango í staðinn í mitt salat. Mango er þó mikið notað í Afríku svo ég er ekkert að svindla. Eina svindlið í mínu salati er að ég nota vínber en vínber eru sjaldséðir gestir á þessum slóðum. Ástaraldin er ómissandi í þetta salat en það er einmitt afríski punkturinn yfir i-ið. Það er fátt betra en að enda viðburðarríkan og heitan í Afríku á ávaxtasalati og tebolla (sumir reyndar kjósa kökusneið og koníak!). Það er bara ein regla sem ég hef með svona salöt. Hún er: ALDREI, ALDREI skilja eftir steina í melónum eða vínberjum. Það er fátt leiðinlegra en að bíta í gómsætt salat til þess eins að skyrpa út úr sér bragðvondum steinum. Steinar úr ástaraldinum sleppa fyrir horn því þá á að borða. Þetta salat er pakkfullt af vítamínum og trefjum og er sérlega sumarlegt.


Innihald
 • 1/4 ananas, vel þroskaður
 • 1 mango, vel þroskað. Nota má papaya ef þið viljið í staðinn
 • 3 ástaraldin (enska: passion fruit), (veljið þunga ávexti)
 • 1 banani, ágætlega þroskaður
 • 1/4 vatnsmelóna, vel þroskuð
 • 1 lúka græn, steinalaus vínber (bara upp á litinn, má sleppa)

Aðferð
 • Gott er að miða við að hafa alla bitana jafn stóra eða álíka og sykurmola að stærð.
 • Skerið ananasinn í bita og setjið í skál.
 • Skerið vatnsmelónuna í bita, fræhreinsið og setjið í skál.
 • Skerið mangoið í bita (sneiðið meðfram steininum með löngum hnífi, afhýðið og notið svo bara það sem þið getið skorið í jafna bita. Afganginn má frysta og nota síðar). Setjið í skál.
 • Skerið vínberin í helminga, fræhreinsið ef þarf og setjið í skál.
 • Skerið banana í sneiðar og setjið í skál.
 • Blandið öllu saman í stóra skál. Til að merja ekki ávextina er gott að hella svolitlu úr skálunum ofan í stóru skálina, þannig þarf maður ekki að hræra mikið.
 • Skerið ástaraldinin í helminga og skafið allt úr þeim yfir salatið.
 • Setjið plast yfir skálina ef ekki á að bera salatið fram strax.
 • Ef salatið er ekki nægilega sætt (t.d. ef ananasinn er ekki nægilega vel þroskaður) má setja eins og 50 ml af hreinum appelsínusafa yfir salatið.

Annað
 • Til að velja þroskaðan ananas: ef þið potið í botninn á honum ætti hann að gefa aðeins eftir, lyktin af botninum ætti að vera sæt og þung ananaslykt og þið ættuð að geta plokkað blað úr krónunni auðveldlega.
 • Til að velja þroskaða melónu: prófið að ýta á endana á melónunni, þeir ættu að gefa aðeins eftir. Melónan á að virka mjög þung miðað við stærð ef þið haldið á henni og ef þið bankið í hana ættuð þið að finna smá hreyfingu í kjötinu (ekki gott að útskýra ha ha).
 • Til að velja þroskað ástaraldin: ávöxturinn á að virka þungur eða álíka eins og tómatur. Hýðið má ekki að vera mjög krumpað.

Uppskriftin á CafeSigrun.com
 

 Augnablikið

Grænir teakrar í leið til Kampala, Uganda

 Vissir þú

Gíraffahjarta getur dælt 61 lítra af blóði á mínútu

 Myndir úr ferðum

Myndir úr ferðum

 Myndskeið úr ferðum

Myndskeið úr ferðum

 Fyrirspurnir

Viltu vita meira um ferðir og fyrirkomulag?

Sendu fyrirspurn