Uganda er lítið en afar gróðursælt land í Austur Afríku og liggur að Sudan, Kongó (áður Zaire), Rwanda, Tanzaníu og Kenya. Landið er hálent; meðalhæð landsins yfir sjávarmáli er 1100m. Við suðvestur landamærin eru nokkur óvirk eldfjöll. Vötn ná yfir um fimmtung landsins. Rwenzori fjallgarðurinn (tunglfjöllin) er hæsti fjallgarður Afríku. Hæsta fjall Uganda heitir Margherita Peak (5.119m). Í Uganda á Níl upptök sín í Viktorívatni en Níl er lengsta á í heimi. Winston Churchill kallaði Uganda “Perlu Afríku” og víst er að náttúrufegurð Uganda er sannkölluð perla. Þrátt fyrir erfiða tíð á árum áður hefur Uganda aðlagað sig vel og er fólk í Uganda glaðlynt og bjartsýnt. Stöðugleiki ríkir almennt í landinu, sérstaklega í því sunnanverðu og fjöldi ferðamanna eykst ár frá ári. Þekktustu þjóðgarðar Uganda eru Lake Mburo National Park og Queen Elizabeth National Park.
Kort af Uganda
Saga Uganda fyrir 18. öld
Ekki er mikið skráð í sögu Uganda fyrr á tímum en sögur eru um fjölda fólks sem bjó í kringum Viktoríuvatn og með fram ánni Níl og hélt kýr og ræktaði land. Í norðri hins vegar var meira um stríðsmenn, hávaxið fólk með boga og örvar sem veiddi fisk og önnur dýr sér til matar. Uganda er eitt fjöbreyttasta land í heimi hvað varðar menningu og tungumál því í þessu landi eru töluð 36 tungumál og að minnsta kosti 30 ættbálkar eru skráðir. Á 19. öld komu Arabarnir með byssur, föt og glingur í skiptum fyrir fílabein og þræla. Arabar náðu ekki fótfestu því Bretar komu og réðu ríkjum þó ekki næðu þeir sömu stöðu og þeir gerðu í nágrannalöndum eins og Tanzaníu og Kenya.
Nútímasaga
Ugandabúar eru afkomendur þegna fjögurra fornra konungsríkja, Buganda (nafnið Uganda er dregið af því), Bunyoro, Acholi og Amba. Bretar tóku yfir Uganda um 1894 sem öðlaðist svo sjálfstæði tæplega 100 árum síðar eða árið 1962. Milton Obote varð fyrsti forsætisráðherrann í sundurleitri samsteypustjórn, sem klofnaði fljótlega. Þann 25. Janúar 1971 var Obote steypt af stóli í vopnuðu valdaráni, sem Idi Amin stjórnaði. Idi Amin varð einræðisherra en var jafnframt hart gagnrýndur af öðrum þjóðum. Talið er að í valdatíð hans hafi 300.000 manns verið drepin. Hann rak flesta Indverja og aðra Asíubúa með 90 daga frest úr landi en Indverjar stjórnuðu stórum hluta af verslun landsins. Idi Amin hins vegar sat að því sem fólkið skildi eftir og eyddi í sjálfan sig og góðkunningja sína. Sama sagan átti sér stað með Bretana en Amin hertók teframleiðslu þeirra sem og aðra framleiðslu sem síðar hrundi í hans stjórn. Meirihluti Evrópumanna fluttist því í burtu með tómar hendur. Amin réðst inn í Tanzaníu árið 1978 með það fyrir augum að sölsa undir sig völdum þar. Árinu seinna hófu Tanzaníumenn ásamt brottreknum hermönnum frá Uganda gagnsókn og yfirbugaði sterkan og vel búinn her Amins. Í apríl sama ár var Kampala frelsuð og Idi Amin flúði til Líbíu en lést í útlegð í Saudi Arabíu árið 2002.
Ástandið í dag
Eftir að Úganda öðlaðist sjálfstæði hnignaði heilbrigðisþjónustu verulega og alnæmi er útbreitt þó tilfelli smita hafi farið úr 25% niður í 6% á síðustu 20 árum (sumir hafa véfengt þessar tölur). Síðan 1979 hefur kaffi verið aðal útflutningsvara landsins en mikil verðbólga og lág laun hefur haft í för með sér glæpi og spillingu. Ástandið er þó misjafnt eftir landshlutum því suðurhluti Uganda er talinn mjög öruggt land fyrir ferðamenn, sérstaklega suðurhluti landsins á meðan varað er við ferðalögum til norðurhlutans, er það sérstaklega vegna skæruliða í Kongó en þar eru börn gjarnan numin á brott til að nota í hernað. Hluti af framleiðslu í landbúnaði er nú seldur í borgum landsins og það hefur stuðlað að meiri tekjujöfnun milli dreifbýlis og þéttbýlis en áður fór framleiðsla meira úr landinu. Frá árinu 1986 hafa stjórnvöld reynt að vinna gegn spillingu en efnahagsástandið er þó mjög veikt. Vegir í Uganda eru yfirleitt afar góðir og malbik/steyptir vegir eru víða.
Hvenær er best að fara til Uganda
Hægt er er að ferðast til Uganda á öllum árstímum. Mest rignir í apríl – maí og október – nóvember í suðurhluta landsins en í norðri eru rigningarnar frá apríl – október og þurrkatíminn er frá október – mars. Margir velja að fara í janúar – febrúar eða júní – september en þá er hlýtt og þurrt.
Veðurfar
Hitastig er nokkuð stöðugt vegna hæðar landsins, eða um 30-32°C þegar heitast er á láglendinu, en getur farið niður í 6 °C í fjöllunum þegar kaldast er. Mikill munur er á hitastigi eftir því sem ofar er farið í fjöllin. Á þurrkatímum er almennt ekki mikill raki og vegna þess hversu oft skýjahula þekur himininn þarna um slóðir er oftar en ekki þægilegt hitastig þó heitt sé í veðri.
Þjóðerni
Íbúafjöldi Uganda samanstendur af mörgum ættbálkum eða rúmlega 30 en þeirra stærstu eru Bantu (í suðurhlutanum) og Nilotic (í norðurhlutanum). Bantumælandi fólk er í meirihluta í landinu og Gandafólkið er allt að 1/5 af þjóðinni en Ganda og Nyoro ættbálkarnir eiga sér langa sögu. Sumir þeirra t.d. Nyoro og Ganda ættbálkarnir eiga sér langa sögu. Aðrir, t.d. Núbíarnir voru myndaðir af stjórnmálalegum ástæðum á nýlendutímanum. Indverjar, sem náðu tæplega 100 þúsund árið 1969 og Evrópubúar, sem voru rétt um 10 þúsund, hröktust flestir á brott undan harðræði Amins.
Á nýlendutíma Breta voru aðalmiðstöðvar efnahagslífsins og menntunar í suðurhluta landsins. Þetta leiddi til þess að Bantumenn urðu ríkjandi í valdastéttum, sem réði flestum embættum og æðri stöðum þjóðfélagsins en í her og lögregluliðum Breta á nýlendutímum voru aðallega menn úr norðri. Þessi misskipting hefur ráðið miklu um þróun í landinu eftir sjálfstæði.
Tungumál
Opinbert tungumál er enska (var áður Luganda en var breytt 1995 í ensku) en einnig er Swahili og ættbálkatungumál töluð. Swahili þó minna. Sums staðar er franska töluð. Alls eru töluð 32 tungumál í landinu.
Trúarbrögð
- Múslimar, shítar og sunnitar: um 12%
- Kristni (mótmælendur og kaþólikkar): um 85%
- Andatrú: um 1%
- Annað: um 2%