Kenya er eitt þeirra landa sem telst til Austur Afríku og liggur meðal annars að Sómalíu, Eþíópíu, Sudan, Uganda og Tanzaníu. Kenya er 582.000 km² að flatarmáli. Nairobi liggur í 1660m yfir sjávarmáli og hæsti punktur Kenya er Mt. Kenya, sem er 5199m yfir sjávarmáli. Kenya er gjöfult og gróðurríkt land, sérstaklega á hásléttunum.
Í Kenya eru margir þjóðgarðar en þar á meðal eru: Masai Mara, Tsavo East og West og Amboseli.
Saga Kenya fyrir 18. öld
Austur Afríka og þá aðallega Sigdalurinn mikli (Rift Valley) er stundum kölluð Vagga mannkyns en þarna fundust fyrstu vísbendingar um mannkynið. Fyrir um 3-5 þúsund árum fóru fyrstu innflytjendurnir að láta á sér kræla (fólk sem talaði Cushitic og Nilotic tungumálið) frá Eþíópíu sem aðallega voru kúahirðar og bændur. Um 100 fyrir Krist kom fór fólk í Bantu ættbálki frá Vestur Afríku að streyma til Kenya. Með þeim hófst akuryrkja og framleiðsla á járnhlutum. Út við ströndina voru einnig breytingar því austurströnd Afríku var mikilvæg viðskiptamiðstöð Forn-Grikkja allt frá um 400 fyrir Krist. Arabar komu svo á elleftu öld og með þeim kom Íslam. Þessi grunnur myndaði svo þá flóru trúarbragða og tungumála sem tilheyrir Swahili menningu og hefðum. Verslun blómstraði og viðskipti með krydd, gull, fílabein og þræla náði til Indlands og Kína. Fyrstu Evrópubúarnir til að nema land í Austur Afríku voru Portúgalir (Vasco de Gama) sem kom árið 1498. Á þremur öldum höfðu Portúgalir náð yfirráðum yfir bæði svæðum og verslun á allri strönd Austur Afríku og byggðu víða virki. Þeirra þekktast er Fort Jesus í Mombasa. Arabar frá Oman náðu svo yfirráðum yfir Portúgali á 18. öld.
Nútímasaga
1890 skrifuðu Bretar og Þjóðverjar undir samning sem varð að breskum yfirráðum á stórum svæðum Austur Afríku. Þar sem núna er Tanzanía, Rwanda og Burundi var undir stjórn Þjóðverja en Bretar réðu yfir Uganda og Kenya. Um 1950 voru þjóðernishópar komnir á stjá og náðu styrk eftir allri Austur Afríku. Þessi hreyfing leiddi til sjálfstæðis Tanzaníu (1961), Uganda, Rwanda og Burundi (1962) og Kenya (1963). Eftir blóðuga sjálfstæðisbaráttu tóku þeir hvítu sem eftir voru í Kenya lönd frá innfæddum (aðallega Kikuyu fólki). Kikuyu fólkið svaraði með Mau Mau byltingunni, sem gjörbreytti pólitísku landslagi í Kenya. Markmiðið var að hrekja hvíta fólkið burtu frá Kenya. Árið 1963 var samið um frið og stjórnvöld keyptu lönd hvítra og létu eftir til innfæddra.
Þrátt fyrir marga ættbálka innan Kenya hefur þeim yfirleitt tekist að lifa í sátt og samlyndi. Hins vegar fylgdist alþjóð með þegar kosningar fóru fram í desember 2007 og blóðug átök spruttu víða fram í kjölfarið. Óttast var að borgarastyrjöld skylli á. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Kenya, Raila Odinga, neitaði að taka þátt í myndun þjóðstjórnar til þess að binda endi á þjóðernisdeilur sem brutust út eftir að úrslit forsetakosninga voru kynnt. Odinga taldi að forseti Kenya, Mwai Kibaki, sem var endurkjörinn með naumum meirihluta, hefði engan rétt á að bjóða fram einhverjar lausnir við stjórnarandstöðuna þar sem hann hefði ekki unnið kosningarnar. Odinga (og fleiri) hafði efasemdir að rétt hafi verið staðið að talningu atkvæða í forsetakosningunum. Stjórnarandstaðan vidi fá sáttasemjara að deilunni þannig að samkomulag næðist. Kibaki bauðst loks til þess að mynda þjóðstjórn eftir að hafa fundað með háttsettum bandarískum embættismanni. Yfir þrjúhundruð manns létu lífið í ofbeldisöldunni sem ríkti í landinu í kringum kosningarnar.
Ástandið í dag
Þrátt fyrir nokkuð góðan stöðugleika síðustu áratugi hefur fátækt aukist víða og skuldir á hvern íbúa eru miklar. Víða eru erjur á milli ættbálka en helst er ástandið slæmt í fátækrahverfum Nairobi sem og á nokkrum svæðum í Sigdalnum mikla. Læsi er almennt gott eða um 85% sem er með því hæsta í allri Afríku en metnaður er meðal Kenyabúa að mennta sig. Ferðamennska er landinu afar mikilvæg og er bæði auðvelt og þægilegt að ferðast um Kenya. Alls staðar er ferðamönnum heilsað með brosi og glaðlegu „Jambo" (góðan daginn).
Hvenær er best að fara til Kenya
Hægt er er að ferðast til Kenya á öllum árstímum. Margir velja að fara í júlí og ágúst en þá er veðrið svalt og þurrt. Á þessum tíma (júlí-október) er t.d. gaman að fara í Masai Mara þjóðgarðinn sem er þá upp á sitt besta og dýrin streyma frá Serengeti þjóðgarðinum í Tanzaníu. Einnig er desember – janúar mikill ferðamannatími í Kenya en þá er heitara og rakara. Í október-janúar (sérstaklega nóvember er best að stunda „snorkl”.
Veðurfar
Rigningatímabilið er frá mars til maí og styttra rigningartímabil er frá nóvember til janúar. Þurrasti tíminn er frá júni til september og þá er hitastig um 24-31°C (lægra í Nairobi en t.d. í Mombasa). Uppi á hásléttunni er þó aðeins meiri líkur á smá vætu og hitastig aðeins lægra.
Þjóðerni
Í Kenya er að finna rúmlega 70 afríska þjóðflokka meirihluti þeirra er af Bantu uppruna en þeir komu frá vestri og suðri s.s. Sukumafólkið og svo eru það Nilotar sem komu frá Suður Súdan m.a. Masaiar.
Eins og í fleiri löndum Afríku þá hvatti stjórn landsins til landnáms Asíumanna á nýlendutímabilinu sem urðu framarlega í verslun og viðskiptum. Flestir Indverjar sem settust að voru frá Punjab og Gujarat en þeir unnu fyrir Breta til að aðstoða Kenya við lagningu lestarteina til Uganda. Eftir að lagningu lestarteinanna lauk fengu margir Indverjar leyfi til að setjast að og opna fyrir viðskipti og verslun.
Allt fram til 1880 var Sigdalurinn Mikli (Rift Valley ) og Aberdare hálandið heimkynni hinna stoltu stríðsmanna Maasai – þjóðflokksins. Á seinustu árum nítjándu aldarinnar hafði þessi kynstofn veiklast mjög vegna stöðugra innri deilna, auk þess sem sjúkdómar og farsóttir höfðu einnig herjað á þá. Þetta auðveldaði Bretum að sniðganga samkomulag við höfðingja Maasaianna og hófu nú lagningu Mombasa – Uganda járnbrautarinnar í gegnum beitarlönd Maasaianna. Í dag stendur Nairobi borg á um það bil miðri þessarri leið.
Héðan fór að halla undan fæti fyrir Maasaiunum. Hvítir menn fóru nú að krefjast meira ræktunarlands og Maasaiunum var smalað saman í minni verndarsvæði. Nú var einnig hrifsað stórt landsvæði frá Kikuyu mönnum (fjölmennasta ættflokki í Kenya), Bantu þjóðflokki, sem stunduðu akuryrkju.
Tungumál
Fyrsta tungumál Kenyabúa er þeirra eigið ættbálkatungumál en Swahili og enska eru opinber tungumál í Kenya.
Trúarbrögð
- Múslimar, shítar og sunnitar: um 10%
- Kristni (mótmælendur og kaþólikkar): um 40%
- Andatrú: um 30%
- Hindu: um 10%
- Annað: um 10%