Afríka Ævintýraferðir - afrika.is
Fara beint í leiðakerfi vefjarins

Rwanda

Fáni Rwanda
 • Rwanda Rwanda
 • Stærð: 26.338 km²
 • Íbúafjöldi: 8,6 milljónir
 • Höfuðborg: Kigali
 • Stjórn: Lýðræði
 • Forseti: Paul Kagame
 • Þjóðartekjur: Landbúnaður, ferðamenn
 • Útflutningur: Te, kaffi, Pyrethrum (notað í skordýraeitur)
 • Trú: Kristni (65%), Múslimir (10%). Um 25% þjóðarinnar halda enn í sína fornu trú og siði
 • Ættbálkar: Hutu, Tutsi, Twa (afar lítill hluti)
 • Tungumál: Kinyarwanda, franska, enska
 • Gjaldmiðill: Rwanda Franc (RWF) RF
 • Rafmagn: 230W, 50 Hz (venjulegar klær)
 • Tímabelti: GMT/UTC +2
 • Sími: +250

Rwanda

Rwanda er lítið land (um 1/5 af flatarmáli Íslands) sem liggur rétt sunnan miðbaugs í austanverðri Mið Afríku. Upp að Rwanda liggja Congo, Uganda, Tanzanía og Burundi. Landið er afar þéttbýlt og gróðurríkt en þar er þó mikil fátækt og miklar hörmungar hafa dunið yfir landið í gegnum tíðina. Í Rwanda má finna hinar mikilfenglegu fjallagórillur en hluti þeirra rúmlega 700 dýra sem eftir eru í heiminum hafa heimkynni í Virungafjallgarðinum í Rwanda. Landið er stundum kallað „Land hinna þúsund hæða" (Les Pays des Milles Collines) og víst er að mörg falleg fjöllin er að finna í Rwanda. Íbúar Rwanda eru að nálgast 9 milljón sem gerir landið að því fjölmennasta í Afríku miðað við flatarmál

Kort af Rwanda
Kortið er fengið af maps.com

Saga Rwanda fyrir 18. öld

Talið er að Twa ættbálkurinn sem eru Pygmy dvergar hafi búið í Rwanda í um 35 þúsund ár. Meirihluti Rwandabúa eru af Hutu ættbálki en minnihluti er af Tutsi ættbálki. Twa ættbálkurinn er afar fámennur. Um það leyti sem Evrópubúar komu til Rwanda var það konungsríki sem náði yfir á svæði Zaire (nú Congo). Þjóðfélagið var þróað með eigin trú. Rwandabúar (Banyrwanda) voru þekktir fyrir heraga sem gerði þeim kleift að verjast árásum utan frá en einnig nýttu þeir herstyrk sinn í að ráðast inn í konungsríkið Burundi.

Allir ættbálkarnir færðu konunginum fórnir í staðinn fyrir vernd og ýmsa greiða. Þegnar voru nokkuð jafnir í virðingarstöðu eða allt þangað til í kringum landnám þegar þegnum var skipt í þjóðfélags- og virðingarstöður eftir þjóðarbroti.

Nútímasaga

Landið varð að belgísku verndarsvæði eftir fyrri heimsstyrjöldina þar til það fékk sjálfstæði 1962. Belgísku nýlenduherrarnir skiptu þjóðarbrotum niður eftir stöðu þ.e. minnihluti Tutsi voru í æðri stéttum þjóðfélagsins en lægra settir Hutu og Tutsi voru í lægri stéttum. Kaþólska kirkjan mat sem svo að Hutu og Tutsi væru ólíkir kynþættir miðað við útlit þeirra (Tutsi háir og grannir en Hutu lægri og breiðleitari). Þó að hávaxinn Hutu væri ekki Tutsi var hann flokkaður sem svo þ.e. í æðri stétt ef hann átti 10 eða fleiri nautgripi. Þessi ójöfnuður átti eftir að koma af stað uppreisn Hutu ættbálksins sem leiddi til þjóðarmorðanna síðar meir. Frá og með 1935 þurftu íbúar Rwanda að ganga með eins konar persónuskilríki þar sem fram kom hvort viðkomandi var Tutsi, Hutu eða Twa. Þessi skilríki áttu síðar eftir að auðvelda Hutu mönnum verkið í þjóðarmorðunum. Þann 6. apríl 1994 hófust þjóðarmorðin í Rwanda og var rúmlega 800.000 manns, flestum af Tutsi ættbálkinum (en einnig af Hutu ættbálki, sérstaklega ef þeir voru giftir einstaklingum af Tutsi ættbálki) beinlínis slátrað af öfgamönnum Hutu manna (Interahamwe). Morðin áttu sér stað yfir 100 daga tímabil og voru skipulögð með mikilli nákvæmni, svo mikilli að aðeins 20 mínútum eftir að flugvél forsetans var skotin niður hófst blóðbaðið. Viðbrögð alheimsins sérstaklega Vesturlanda hafa verið mikið gagnrýnd því ekkert þeirra skipti sér af ástandinu. Bandaríkin undir stjórn Bill Clintons voru sökuð um algert sinnuleysi en talið er að Clinton hafi verið ráðlagt að halda sér frá því að skipta sér af Rwanda eftir að Bandaríkin gerðu misheppnaða tilraun til að hjálpa í stríðsátökum í Mogadishu í Sómalíu. Sú tilraun endaði með ósköpum og Bandaríkjamenn voru afar tregir við að endurtaka leikinn. Sameinuðu þjóðirnar sem voru með friðargæslusveitir sínar á staðnum, beitti sér heldur ekki í málinu. Blóðbaðið var hroðalegt og var engum þyrmt sem ekki var í náðinni.
Núverandi forseti landsins, Paul Kagame leiddi uppreisnarhreyfinguna RPF (Rwandese Patriotic Front) og steypti Hutu stjórninni af stóli. Kagame var sjálfur Tutsi og náði völdum í landinu. Eftir aðgerðirnar flúðu þúsundir Hutu manna til Congo. Talið er að þeir Hutuar sem flúðu til Congo séu nú þátttakendur í borgarastyrjöld í Burundi. Enn fremur hafa sumir haft áhyggjur af því að þeir séu að safna liði til að hrifsa völd til sín aftur. Þessir ættbálkar hafa átt í stríði í langan tíma.

Ástandið í dag

Þrátt fyrir miklar hörmungar fyrir rúmum áratug er ekki auðvelt fyrir ferðamenn að greina það á fólkinu eða kringumstæðum. Íbúar landsins eru kurteist og glaðlynt fólk sem hefur ýtt frá sér því sem erfitt er að hugsa of mikið um. Forseti landsins hefur átt ríkan þátt í góðri uppbyggingu vegakerfa og peningar erlendis frá streyma inn í landið. Afleiðing þjóðarmorðanna á menntun var slæm enda flestir skólar landsins eyðilagðir. Kennarar voru drepnir umvörpum og vegna mikillar fátæktar reyndist erfitt að koma á fót skólum. Skortur var á menntuðum kennurum og er enn. Erlent fjármagn hefur þó bætt aðeins úr. Auðvelt er að ferðast um Rwanda og einkum eru það fjallagórillurnar sem trekkja en að skoða þessar mikilfenglegu skepnur er ótrúleg upplifun sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Mikil uppbygging á sér stað um gjörvallt landið og alls staðar má sjá nýjar byggingar eða í smíðum og þó ekki séu þær burðugar á Vestrænan mælikvarða eru þær tákn um um þá bjartsýni sem þar ríkir.

Hvenær er best að fara til Rwanda

Hægt er er að ferðast til Rwanda á öllum árstímum. Vegir í Rwanda eru víðast afbragðsgóðir. Til að forðast rigningartímann er best að forðast að fara í miðjum marsmánuði og fram í miðjan maímánuð. Margir velja að fara um miðjan maí alveg fram í september til að skoða górillur enda er þurrara þá en á öðrum tímum en þó getur gróður verið of þurr. Best er að fara í júlí og ágúst til að skoða górillur því auðveldara er að fá górilluleyfi þá en á öðrum tímum enda færri ferðamenn.

Veðurfar

Skipta má árstíðunum í fjóra mismunandi langa þurrk- og regntíma. Langa rigningartímabilið eru frá miðjum mars og fram í miðjan maí, langt þurrkatímabil er frá miðjum maí til september, stuttar rigningar frá október til desember og stutta þurrkatímabilið nær frá miðjum desember fram í miðjan mars. Hitastigið er um 24°C og allt upp í 30°C en er lægra í fjöllunum sem þekja meirihluta landsins og getur verið um 10-15°C að degi til. Mjög svalt getur verið á hálendinu að nóttu til, sérstaklega í norð-austurhluta landsins.

Þjóðerni

Í Rwanda eru tveir ættbálkar, Hutuar sem eru í meirihluta og Tutsar.

Tungumál

Fyrsta þjóðartunga Rwandabúa er Kinyarwanda en einnig er töluð franska og enska.

Trúarbrögð

 • Kristnir (mótmælendur og kaþólikkar): 65%
 • Múslimir: 10%
 • Andatrú og önnur forn trú: 25%

 Augnablikið

Litlar górillutásur í frumskógi Virunga fjallanna, Rwanda

 Vissir þú

Flóðhestar hafa aðeins tvær tegundir óvina; aðra flóðhesta og manninn

 Myndir úr ferðum

Myndir úr ferðum

 Myndskeið úr ferðum

Myndskeið úr ferðum

 Fyrirspurnir

Viltu vita meira um ferðir og fyrirkomulag?

Sendu fyrirspurn