Afríka Ævintýraferðir - afrika.is
Fara beint í leiðakerfi vefjarins

Um Afríku

Kort af Afríku
Kortið er fengið af maps.com

Almennt

Afríka er önnur stærsta heimsálfa jarðar og sú næst fjölmennasta á eftir Asíu með um 900 milljónir íbúa (rúm 14% jarðarbúa). Flatarmálið er um 30,221,532 km2 (þ.m.t. nærliggjandi eyjar eins og Madagaskar, Mauritius og Seychelleseyjar) og þekja um 20,4% af þurrlendi jarðar. Afríka er frá norðri (Túnis) til suðurs (Suður Afríka) 8000 km að lengd og frá austri (Sómalía) til vesturs (Senegal) um 7600 km. Strandlengjan er sú stysta af öllum heimsálfunum vegan fárra fjarða og flóa og er um 31,300 km. Afríka, sérstaklega Eþíópía er kölluð vagga mannkyns en þar hafa fundist elstu mannvistaleifar (200.000 ára gamlar) sem vitað er um. Afríka er umlukin Miðjarðarhafinu í norðri, Súez skurðinum og Rauða hafinu í norð-austri, Indlandshafi í suð-austri og Atlantshafinu í vestri.

Eins og sjá má á myndinni hér fyrir neðan er Afríka gríðarlega stór og átta sig fáir á því í raun hversu stór hún er. Ef miðað er við flatarmál mætti koma fyrir innan Afríku; Indlandi, Kína, Vestur Evrópu, Bandaríkjunum og Argentínu. Samanlagt eru þessi svæði 29,843,826km2 að flatarmáli en Afríka er 30,301,596 km2 að flatarmáli.

Kort af Afríku í samanburði við önnur lönd
Kortið er fengið af Strange Maps

Álfan

Álfan er víða afar gjöful og gróðurrík og má segja að hvergi í heiminum sé að finna jafn mikið úrval gróður- og dýrategunda. Þó gengið hafi verið á regnskóga í gegnum tíðina má enn þá finna skóga sem þekja stór landsvæði. Dýralíf er afar fjölbreytt og þarna má finna mörg af mikilfenglegustu dýrum jarðarinnar eins og t.d. fíla, gíraffa, flóðhesta, ljón, blettatígra, hlébarða, górillur (fjallagórillur og láglendisgórillur) o.fl. Afríka er einnig auðug af alls kyns verðmætum jarðefnum sem hafa verið tilefni stríða í gegnum aldirnar. Þar má til dæmis finna olíu, málma, kol, demanta, alls kyns gimsteina og eðalmálma. Afríkubúar hafa þó ekki alltaf fengið sinn skerf af þeirri gnægt auðlinda sem finna má og hafa oft borið skarðann hlut frá borði. Afríka er fjalllend og þar má t.d. finna hæsta frístandandi fjall heims, Kilimanjaro sem er jafnframt hæsta fjall Afríku (5895m). Þjóðgarðar Afríku eru ein af ástæðunum fyrir því að margir heimsækja álfuna og eru þeirra þekktastir Masai Mara, Tsavo East og West í Kenya, Serengetti í Tanzaníu, Kruger National Park í Suður Afríku o.fl.

Tungumál, ættbálkar og menning

Um 2000 tungumál eru töluð í Afríku allri og gríðarlega margir ættbálkar finnast. Þeir eru misjafnlega fjölmennir og útbreiddir en líklega er þeirra þekktastur Masai ættbálkurinn í Kenya. Fjölbreytileiki fólks er mikill og mun vera sá mesti í heiminum. Í gegnum árþúsundin hafa ytri aðstæður eins og t.d. veðurfar og landslag mótað fólk á mismunandi hátt eins og annars staðar í heiminum. Menning Afríku er að sami skapi fjölbreytt og trúarbrögð eftir því.

Pólitísk saga

Nútíma pólitík eftir vestrænni forskrift er nokkuð ný af nálinni. Lönd í vestur – Evrópu ásældust mjög auðæfi sem Afríka hafði að geyma. Þrælar voru mjög verðmætir og þeir voru seldir bæði vestur og austur yfir höf. Afríka er víða mjög frjósöm og Vesturlöndum þótti sjálfsagt fyrr á öldum að eigna sér landsvæði og deila út til sinna þegna annað hvort ókeypis eða gegn greiðum eða vægu gjaldi. Alltaf var innfæddum íbúum ýtt til hliðar og þeir neyddir til að setjast að á lakari stöðum og/eða vinna nánast eins og þrælar fyrir nýlenduherrana. Auðvitað kom að því að fólkið í landinu reis upp og krafðist sjálfstæðis. Í fyrstu var hlegið að slíkum hugmyndum en þegar blóðugar skærur fóru að eiga sér stað var ljóst að löndin í Afríku ætluðu sér sjálfstæði. Nú eru 53 sjálfstæð ríki í Afríku og sum standa á brauðfótum þegar kemur að lýðræði og mannréttindum. Það er erfitt að kryfja það alveg til mergjar hvað veldur en sumir vilja meina þetta sé afleiðing nýlendustefnunnar. Aðrir segja að þetta séu óhjákvæmilegir vaxtaverkir ungra þjóða. Hver svo sem skýringin er þá er mjög mikilvægt að líta ekki á almenning í Afríku sem þurfalinga sem ekki geti bjargað sér af eigin rammleik. Staðreyndin er sú að verslun og viðskipti hafa oft meiri keðjuverkandi áhrif heldur en gjafir og beint austur peninga í landið. Að ferðast til Afríku og njóta þeirra lystisemda sem löndin hafa upp á að bjóða, versla við heimamenn o.fl. er oft besta „aðstoðin”.

Trúarbrögð

Íslam er útbreidd en það er fyrir tilstuðlan Araba sem breiddu út Íslam allt suður fyrir Sahara og gerðu að aðaltrúarbrögðum margra þjóða Afríku. Kristni (kaþólikkar og mótmælendur) eru aðaltrúarbrögð margra en einnig er stunduð galdratrú. Margir sem aðhyllast annaðhvort Kristni og Íslam hafa sína hjátrú sem er mjög sterk víða og treysta mikið t.d. á hefðbundna „töfralækna”.

 Augnablikið

Horft yfir Lake Challa í Kenya við landamæri Tanzaníu

 Vissir þú

Ekki er hægt að temja zebrahesta svo vel sé, þeir eru of skapillir og óútreiknanlegir

 Myndir úr ferðum

Myndir úr ferðum

 Myndskeið úr ferðum

Myndskeið úr ferðum

 Fyrirspurnir

Viltu vita meira um ferðir og fyrirkomulag?

Sendu fyrirspurn