Afríka Ævintýraferðir - afrika.is
Fara beint í leiðakerfi vefjarins

Almennt um Kilimanjaro

Drottning afrísku fjallanna

Kilimanjaro er hæsta fjall Afríku 5895m. Það tilheyrir ekki neinum fjallgörðum eins og t.d. Andesfjöllin eða Alparnir sem gerir það að “frístandandi” fjalli og það hæsta í heiminum sem slíkt. Kilimanjaro er mjög fjölskrúðugt fjall hvað gróður varðar og má segja að gengið sé um flest gróðurbelti jarðar á leiðinni. Byrjað er í regnskógi, síðan taka við grösugar sléttur. Eftir því sem hæðin eykst verður landslagið hrjóstrugra og lokaspölinn er gengið upp skriður með jökul á aðra hönd.

Áning á leið upp

Leiðangurinn

Oftast er farið á 8 dögum og þar af eru 6 dagar á fjallinu. Þá er komið til bæjarins Moshi við rætur Kilimanjaro og gist eina nótt. Daginn eftir er ekið að upphafspunkti göngunnar (fer eftir því hvaða leið er farin) og gengið upp í tæplega 3000m hæð. Næsta dag er gengið í tæplega 4000m hæð og þar er dvalið einn aukadag til aðlögunar. Síðan er gengið í tæplega 5000m hæð og eftir miðnætti er lagt af stað í lokakaflann. Þá er gert ráð fyrir að fólk sé komið nálægt tindinum þegar sólin kemur upp yfir sléttur Afríku. Af tindinum er gengið niður í tæplega 4000m hæð og gist. Á sjöunda degi er komið til Moshi aftur, farið í langþráða sturtu, og kvöldmatur snæddur. Eftir morgunmat á áttunda degi er leiðangri lokið. Hér fyrir neðan er dagsplanið að hefðbundinni göngu á “Kili”.

  • Dagur 1: Komið til Moshi á gistiheimili og kvöldmatur snæddur
  • Dagur 2: Gengið í tæplaga 3000 m hæð
  • Dagur 3: Gengið í tæplega 4000 m hæð
  • Dagur 4: Aðlögun í tæplega 4000 m hæð
  • Dagur 5: Gengið í tæplega 5000 m hæð
  • Dagur 6: Gengið upp á tindinn eftir miðnætti,5895m og niður í ca 4000m hæð.
  • Dagur 7: Komið til Moshi á ný. Sturta og kvöldmatur
  • Dagur 8: Ferð lokið eftir morgunmat.

Flestir sem ganga á Kilimanjaro vilja sjá eitthvað meira af Afríku og fara í safaríferð til að skoða villt dýr og/eða dvelja við fallega strönd við Indlandshafið. Hér eru nokkrar ferðir sem við höfum sett saman og eru við flestra hæfi. Þeir sem vilja öðruvísi ferð geta sent okkur fyrirspurn og við munum sníða saman ferð sem hentar.

Á leið niður aftur

Hverjir geta gengið á Kilimanjaro?

Til þess að leiðangurinn á fjallið verði sem farsælastur er best að viðkomandi sé í ágætu líkamlegu ásigkomulagi. Þeir sem eiga við sjúkdóma að stríða og þurfa að taka lyf vegna þeirra ættu að leita til síns læknis og fá ráðleggingar áður en að haldið er á Kilimanjaro. Allir sem eitthvað hafa stundað útivist og göngur um Ísland t.d. ættu að eiga góða möguleika á að komast á toppinn.

Við Gillmans Point

Hvernig er gangan?

Kilimanjaro er ekki “tæknilega” erfitt þ.e.a.s. ekki þarf að notast við bönd, ísaxir, mannbrodda o.þ.h. Gangan er nokkuð þægileg jafnt og þétt á fótinn en það er hæðin sem setur strik í reikninginn. Eftir 3000m hæð byrja flestir að finna fyrir minna súrefni sem fer minnkandi eftir því sem að ofar er farið. Þarna gildir að fara hægt og drekka nóg af vatni. Innfæddir leiðangursstjórarnir eru þaulvanir og stýra hraðanum.

Hvernig er best að undirbúa sig?

Best er að æfa sig í að ganga um fjöll og firnindi. Regluleg ganga á Esjuna eða önnur fjöll sem eru í nágrenni þínu er mjög áhrifarík leið til að komast í form. Að sjálfsögðu skal notast við þá gönguskó sem verða notaðir á Kilimanjaro. Auk gönguferða um fjöll er gott að ganga reglulega á jafnsléttu, skokka, synda eða stunda aðra líkamsrækt. Aldur skiptir ekki máli svo framarlega sem að viðkomandi er að stunda eitthvað að framansögðu. Hafa skal í huga að krakkar yngri en 10 ára mega ekki fara ofar en 3000m.

Í náttstað

Hvenær er best að fara?

Þeir mánuðir sem síst er mælt með eru mars- april og maí. Hins vegar geta rigningar alltaf átt sér stað hvenær sem er, eða ekki!

Sendið okkur fyrirspurn fyrir nánari upplýsingar varðandi ferðir.

 Augnablikið

Saddlebill storkur við Kazinga sundið, Uganda

 Vissir þú

Baobab tréð er kallað „tréð sem er á hvolfi“ því greinar þess eru eins og rætur

 Myndir úr ferðum

Myndir úr ferðum

 Myndskeið úr ferðum

Myndskeið úr ferðum

 Fyrirspurnir

Viltu vita meira um ferðir og fyrirkomulag?

Sendu fyrirspurn